Fréttayfirlit 4. apríl 2024

Að gefnu tilefni vegna Heru Bjarkar

Að gefnu tilefni vegna Heru Bjarkar

Nokkuð hefur verið um það undanfarið að SOS Barnaþorpin á Íslandi fái skilaboð frá fólki sem lýsir vanþóknun sinni á samstarfi samtakanna við söngkonuna Heru Björk Þórhallsdóttur og þess jafnvel krafist að þau slíti samstarfinu við hana. Ástæðan er væntanleg þátttaka hennar fyrir hönd Íslands í Eurovision söngvakeppninni í Svíþjóð í vor, þar sem Ísrael verður meðal þátttökuþjóða.

Hera Björk hefur verið velgjörðasendiherra SOS Barnaþorpanna á Íslandi frá árinu 2009. Sem sendiherra hefur Hera stutt við börn í barnaþorpum og á eigin kostnað heimsótt barnaþorp í Frakklandi, Palestínu og Ísrael. Hún hefur lagt sitt af mörkum við fjáröflunarstarf okkar fyrir SOS í Palestínu, komið að viðburðum á vegum samtakanna með ávörpum og söng og lesið inn á auglýsingar svo fátt eitt sé nefnt. Alltaf hefur hún verið boðin og búin til að hjálpa og halda málefnum barna á lofti þegar eftir því hefur verið leitað.

Ekki ástæða til að slíta samstarfi

Þeir sem lýst hafa vanþóknun sinni á samstarfi SOS Barnaþorpanna við Heru Björk gera það margir hverjir undir því yfirskyni að þátttaka Heru í Eurovision jafngildi því að hún taki afstöðu gegn börnum í neyð í Palestínu. Við vitum að það gerir Hera Björk ekki og samtökin sjá því ekki ástæðu til að skipta sér af lögmætri þátttöku hennar í Eurovision eða slíta samstarfinu við hana.  

Við deilum reiði í garð þeirra sem murka lífið úr saklausum borgurum. Allir sem standa utan við stríðið á Gaza upplifa vanmátt sinn gagnvart því og það gerum við líka. Við skiljum vel þau sjónarmið fólks sem vill að fulltrúar þjóðarinnar á opinberum vettvangi noti rödd sína til að mótmæla. En að sama skapi biðjum við um skilning á okkar sjónarmiðum sem eru þau að Hera hefur ekki á nokkurn hátt gerst brotleg gegn gildum SOS Barnaþorpanna. Það yrðu frekar brot gegn þeim gildum ef samtökin ætluðu að þrýsta á velgjörðamanneskju samatakanna og keppanda í söngvakeppni til að beita sér pólitískt á þann hátt sem kröfur eru uppi um.

Á meðan ástandið á Gaza lagast ekki magnast reiði almennings en fyrir þeirri reiði verða því miður þeir sem síst skyldu. Að setja keppanda í söngvakeppni milli steins og sleggju af þessu tilefni er ekki sanngjarnt, hvað þá góðgerðarsamtök sem hann leggur lið með sjálfboðastörfum. Eurovision keppnin mun líða hjá en ákallið um frið á Gaza heldur áfram og verður hærra.

Óháð stjórnmálum í 75 ár 

SOS Barnaþorpin hafa í 75 ár starfað í þágu barna um heim allan óháð stjórnmálum og trúarbrögðum. Það þýðir þó ekki að með því að starfa í löndum þar sem stjórnvöld brjóta á réttindum borgara sinna eða annarra landa séu samtökin að samþykkja slík brot. Þvert á móti. Að sama skapi eru samtökin ekki að leggja blessun sína yfir brot annarra ríkja, þó fulltrúar þeirra ríkja taki þátt í sömu alþjóðlegu keppni og listamaður frá Íslandi, sem í þessu tilviki er velgjörðasendiherra samtakanna. 

Skýr afstaða 

Afstaða SOS Barnaþorpanna til átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs er skýr og kemur fram í alþjóðlegu ákalli samtakanna. Ástandið á Gaza er gjörsamlega óviðunandi og deilum við reiði almennings hvað það varðar. Sjálf hefur Hera tjáð sig á sömu nótum.

Á Gaza sinna SOS Barnaþorpin nú neyðaraðstoð við hræðilegar aðstæður og hafa samtökin á Íslandi m.a. sent þangað 10 milljónir króna og standa nú fyrir söfnun svo senda megi út meira fjármagn og hjálpa megi fleirum á Gaza. Hera Björk stendur með samtökunum í þessum aðgerðum og styður þær.

Á meðan einstaklingar hér heima beina spjótum sínum að SOS Barnaþorpunum af ofangreindum ástæðum, er starfsfólk SOS Barnaþorpanna í Rafah á Gaza vakið og sofið yfir því að vernda þau foreldralausu börn sem eru á framfæri samtakanna og hjálpa almennum borgurum með þeim ráðum sem þau hafa, m.a. vegna stuðnings frá Íslandi.

Viðbót: Tilkynning frá Heru 4. apríl 2024

Vegna frétta af viðtali sem tekið var í Madríd fyrir ísraelska bloggsíðu og mér hafa verið gerðar upp skoðanir um ástandið í Palestínu út af, þá vil ég koma eftirfarandi á framfæri svo enginn misskilningur sé um það:

Mér finnst framkoma Ísrael við palestínsku þjóðina vera hræðileg og til skammar. Að börn þjáist finnst mér alltaf vera skelfilegt og hvað þá þegar heil þjóð þjáist eins og núna er staðan. Ég hef verið í Palestínu og hjálpað til við að fjármagna heimili fyrir munaðarlaus börn þar, svo ég hef séð með eigin augum hvernig er búið að fara með þetta fólk. Ég er á móti stríði. Ég kalla á eftir friði og er á móti því að fólk tali ekki saman og beiti ofbeldi.

SOS-foreldri barna á Gaza

SOS-foreldri barna á Gaza

SOS-foreldri barna á Gaza

Sem SOS-foreldri barna á Gaza styrkir þú SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza í Palestínu með mánaðarlegu framlagi sem nemur 4.500 krónum. Framlagi þínu er varið í daglegan rekstur þorpsins svo tryggja megi öryggi og velferð þeirra barna sem þar búa og fer þeim nú fjölgandi. Einnig er hægt að greiða stakt framlag í neyðarsöfnun SOS.

Mánaðarlegt framlag
4.500 kr