Afríka slapp ekki
Fjölmiðlar á Íslandi og víðar á vesturlöndum hafa undanfarið fjallað um hversu vel Afríka hafi sloppið frá Covid-19 heimsfaraldrinum af því smittíðnin þar er lægri en búist var við. En nýleg úttekt svæðisskrifstofu SOS Barnaþorpanna fyrir austan- og sunnanverða Afríku sýnir að ástandið er í raun grafalvarlegt og brothætt.
Þegar faraldurinn fór að dreifast um heimsbyggðina í upphafi árs var óttast að Afríka færi verst út úr honum. Fjöldi alþjóðlegra hjálparsamtaka, SOS Barnaþorpin þeirra á meðal, lögðu sín lóð á vogarskálarnar svo hægt yrði að draga úr áhrifunum á þá berskjölduðustu. Smit- og dánartölur í Afríku eru vissulega lægri en víðast hvar annarsstaðar en þær eru nú aftur á uppleið og segja aðeins hálfa söguna um ástandið á þessu næst stærsta og næst fjölmennasta svæði heims.
Áhrifaþættirnir
Yfirvöld í Afríkuríkjunum voru fljót að grípa til varúðarráðstafana og mikil samstaða er meðal almennings í sóttvörnum. Líklegt er að lágur meðalaldur Afríkubúa leiki stórt hlutverk í minni útbreiðslu veirunnar í Afríku en óttast var. Langflest dauðsföll eru hjá fólki yfir áttræðu og aðeins 3% Afríkubúa eru yfir 65 ára aldri. Yfir 60% Afríkubúa eru yngri en 25 ára. Meðalaldur núlifandi Afríkubúa er sá lægsti í heimi, 19 ár samanborið við 43,7 ár í Evrópu. Vísindafólk hefur m.a. bent á að Afríkubúar séu vanir að takast á við kórónuveirur og kunni að hafa þróað með sér víxlónæmi (cross-immunity) gegn þeim. Þá ferðast Afríkubúar ekki mikið og þeir eyða miklum tíma utandyra. Þetta tvennt vegur þungt í sóttvörnum.
Nýleg rannsókn bendir einnig til að breiddargráða og loftslag séu Afríku hagstæð gegn útbreiðslu veirunnar. Það hefur sýnt sig að veiran nær mestri útbreiðslu í kulda og raka en smitum snarfækkar þegar hitastig hækkar. T.d. fjölgaði smitum umtalsvert í Suður Afríku þegar fór að vetra á suðurhveli jarðar. Helmingur allra smita í Afríku er í Suður Afríku. Í lok nóvember fór smitum ört fjölgandi í norður Afríku þar sem veturinn færðist yfir.
Voru í viðbragðsstöðu vegna ebólu
Margt útskýrir af hverju útbreiðsla veirunnar var minni í Afríku en óttast var framan af ári. Fjöldi vestur Afríkuríkja reyndist vel í stakk búinn til að smitaprófa, smitrekja og beita sóttkví og einangrun. Heimsfaraldurinn brast á um það leyti sem Kongó átti í baráttu við stærsta ebólufaraldur í sögu landsins. Hæsta viðbúnaðarstig nágrannaríkja var í gildi vegna þess og var Covid-19 skimunum bætt við ebóluskimanir á öllum ferðamönnum. En það er jafnframt óvissuþáttur fólginn í að fjöldi smitprófana er ekki mikill í Afríku.
Brothætt heimsálfa
Það er sannarlega ástæða til að óttast, ekki síst vegna þess hversu veikbyggð heilbrigðiskerfin eru í þróunarlöndunum og efnahagur Afríku er heilt yfir brothættur og má ekki við miklum áföllum. Erfitt er fyrir Evrópubúa að setja sig í spor Afríkubúa. Tækni, samgöngur, menntun, rafmagn, heilsugæsla, aldurssamsetning og svo margt annað er afar ólíkt því sem þekkist á vesturlöndum.
Alvarleg afleidd vandamál
Áðurnefnd úttekt SOS endurspeglar ástandið í allri álfunni að sögn framkvæmdaraðila. Ástandið í sjálfum SOS barnaþorpunum er mjög gott að undanskildu því að stærstur hluti skólaársins hefur glatast hjá börnunum sem hafa hins vegar tekið miklum framförum í tölvuþekkingu og fjarnámi.
Ástandið er verst á svæðum fjölskyldueflingarverkefna SOS sem ganga út á að hjálpa foreldrum upp úr sárafátækt og að standa á eigin fótum svo þeir geti mætt grunnþörfum barnanna. Um 120 þúsund manns, börn, ungmenni og foreldrar þeirra eru skjólstæðingar 166 fjölskyldueflingarverkefna SOS í austan- og sunnanverðri Afríku. SOS á Íslandi fjármagnar eitt þeirra, í Eþíópíu.
Ferða- og fjarlægðartakmarkanir koma í veg fyrir að fólkið geti aflað sér tekna og matar. Börn eru hætt í skóla og farin að vinna til að hjálpa við tekjuöflun og óttast er að stór hluti þessara barna snúi ekki aftur í skóla. Sóttvarnaraðgerðir yfirvalda hafa víðasta hvar komið verulega illa niður á verslun, iðnaði og félagsþjónustu.
Þunganir stúlkubarna orðnar að faraldri
Eitt það átakanlegasta við niðurstöður úttektarinnar er aukið ofbeldi gegn konum og börnum á tímum faraldursins. Þunganir unglingsstúlkna frá 18 ára og allt niður í 12 ára aldur eru orðnar að öðrum faraldri. Í einni sýslu í Kenía var tilkynnt um fjögur þúsund þunganir stúlkubarna, eingöngu á tímabilinu mars til júní, og voru um 200 þessara stúlkna undir 14 ára aldri. Þetta á aðeins við um tilkynnt tilfelli en þau eru í raun mun fleiri. Gerendurnir eru langflestir tengdir stúlkunum fjölskylduböndum og stúlkurnar eru ólíklegar til að snúa aftur til náms. Kenía er meðal þeirra landa Afríku þar sem tíðni þungana stúlkubarna er hvað hæst en þetta vandamál á einnig við um flest önnur Afríkuríki.
Einnig er sláandi að sjá tölur yfir annað kynferðisofbeldi gegn konum á svæðinu sem úttektin náði til, austan- og sunnaverðrar Afríku.
- 73% þeirra kvenna sem rætt var við búa við aukið ofbeldi af hálfu maka.
- 51% eru þolendur kynferðisofbeldis á heimilinu
- 21% verða fyrir áreiti við vatnsstöðvar.
- 32% aukning er á þvinguðum barnagiftingum stúlkna
Þetta er ekki búið
Heilt yfir litið hefur sjálf veiran ekki breiðst eins mikið út og óttast var en áhrif faraldursins hafa valdið miklum skaða. Nú þegar nálgast árslok er önnur bylgja í kortunum á sama tíma og fátækt er að aukast á ný og ofbeldi gegn konum og börnum er í veldisvexti. Í fjarlægð hafa margir andað léttar fyrir hönd Afríku en við höfum ekki efni á því. Afríka slapp ekki. Þetta er ekki búið.
Nýlegar fréttir
Af hverju stappa börn niður fótunum?
Alþjóðlegur dagur barnsins er í dag á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. SOS Barnaþorpin ýttu í dag úr vör herferð með þeim tilgangi að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til...
Börnin í Líbanon heil á húfi
SOS Barnaþorpin í Líbanon hafa staðfest að öll börn og ungmenni á framfæri samtakanna í landinu eru heil á húfi. Stríðsástandið í landinu hefur þó áhrif á börnin sem áfram er hlúð vel að.