Börnin njóta góðs af þeirra ævistarfi
Í byrjun árs 2017 fengu SOS Barnaþorpin erfðagjöf í formi íbúðar. Íbúðin var í eigu hjónanna Renate Scholz og Ásgeirs Kristjóns Sörensen. Ásgeir lést árið 2009 en Renate árið 2015. Hjónin voru barnlaus og áttu eignir þeirra því að renna lögum samkvæmt til ríkissjóðs eftir þeirra dag, nema þau gerðu erfðaskrá og ráðstöfuðu eigum sínum þannig sjálf.
Það varð raunin að Renate ákváð árið 2013 að gera erfðaskrá þar sem skýrt var kveðið á um að íbúð þeirra í Háholti 16 í Hafnarfirði skyldi renna til SOS Barnaþorpanna en hjónin höfðu verið styrktaraðilar samtakanna í áraraðir. Erfðaskráin var skráð hjá sýslumanni og var í hans vörslu þar til Renate lést en í kjölfarið fengu SOS Barnaþorpin íbúðina afhenta.
Hjónin voru afar samhent samkvæmt aðstandendum og einkenndist hjónabandið af virðingu og vináttu. Þau höfðu bæði mikið dálæti á hestum. Ásgeir lærði húsgagnabólstrun og vann alla starfsævi sína við þá iðn. Renate vann lengi hjá St. Jósefssystrum, fyrst á spítalanum í Hafnarfirði en síðar við skólann í Landakoti.SOS Barnaþorpin eru hjónunum innilega þakklát og hefur stjórn SOS á Íslandi sett fjármunina í sérstakan sjóð sem úthlutað verður úr í þágu barna.
Hulda gaf eina milljón
Hjónin eru þó ekki þau einu sem vilja láta skjólstæðinga SOS Barnaþorpanna njóta góðs af ævistarfi sínu. Mikill fjöldi einstaklinga um allan heim ánafnar SOS eignum sínum að hluta til eða öllu leyti eftir sinn dag og þannig geta samtökin hjálpað mun fleiri börnum en ella.
Í febrúar 2017 var SOS Barnaþorpunum tilkynnt um erfðagjöf frá konu að nafni Hulda G. Böðvarsdóttir. Um var að ræða eina milljón króna sem Hulda afleiddi SOS að með því skilyrði að fjármununum yrði varið á sem bestan máta fyrir skjólstæðinga samtakanna.
Hulda bjó í Reykjavík og átti enga lögerfingja. SOS Barnaþorpin voru ekki einu félagasamtökin sem nutu góðs af velvild Huldu en Kattavinafélag Íslands, Bugl -barna og unglingadeild LSH, og Geðhjálp fengu einnig eina milljón króna hvert um sig frá Huldu.
Nýlegar fréttir
Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum
Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Íslensk börn ...
Af hverju stappa börn niður fótunum?
Alþjóðlegur dagur barnsins er í dag á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. SOS Barnaþorpin ýttu í dag úr vör herferð með þeim tilgangi að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til...