Búist við að börnum í fátækt fjölgi um 86 milljónir
Enn hafa engin kórónuveirusmit greinst í SOS barnaþorpum og er það ánægjulegt enda var snemma gripið til viðeigandi ráðstafana. En líf okkar allra hefur breyst á síðustu þremur mánuðum, þá sérstaklega barna sem eiga á hættu að missa foreldraumsjón. Um leið verða sífellt stærri áskoranirnar fyrir SOS Barnaþorpin að annast og vernda þessi börn.
Búist er við að heimsfaraldurinn leiði af sér að börnum sem lifa undir fátæktarmörkum muni fjölga um 86 milljónir fyrir lok ársins og er það fjölgun upp á 15%! Ef hægt er að taka eitthvað jákvætt út úr faraldrinum má helst nefna að tekist hefur að vekja meiri athygli á hversu berskjölduð þessi börn eru og þörfinni á að hjálpa þeim og vernda þau.
SOS í samstarfsaðgerðir til verndar börnum í Afríku
Árið 2017 tóku SOS Barnaþorpin (SOS Children´s Villages) höndum saman með öðrum félagasamtökunum sem vinna að hag og vernd barna og mynduðu bandalagið Joining Forces. Þetta eru auk SOS, Child Fund Alliance, Plan, Save the Children, Terre des Hommes og World Vision. Bandalagið hefur lagt fram aðgerðaáætlun til að draga úr ofbeldi, misnotkun og vanrækslu barna á þessum hættutímum sem á að hrinda í framkvæmd í sumar.
1,5 milljarðar frá Evrópusambandinu
Von er á styrk frá Evrópusambandinu upp á einn og hálfan milljarð króna fyrir þessa áætlun sem felur í sér að efla barnaverndaryfirvöld, foreldrahæfni, sálrænan stuðning, lífsleikniþjálfun og jafningjafræðslu, allt með hag barna í fogrunni í fimm Afríkuríkjum, Senegal, Úganda, Kenía, Malí og Eþíópíu.
Enginn er viðkvæmari en börn
Covid-19 heimsfaraldurinn hefur áhrif og afleiðingar fyrir alla jarðarbúa en enginn hópur er viðkvæmari fyrir þeim en börnin. Þau eru líklegust til að lenda í fátækt og stórauknar líkur eru á að þau verði fórnarlömb ofbeldis og misnotkunar. Þetta hefur þegar sýnt sig nú þegar börn hafa verið föst heima hjá sér í útgöngutakmörkunum.
Erum saman í að bjarga nútíð og framtíð barnanna
Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að við stöndum saman í að verja viðkvæm og berskjölduð börn rétt eins og SOS Barnaþorpin hafa einblínt á og munu gera áfram. Þetta samstarf sýnir að við erum öll saman í að bjarga nútúð og framtíð barnanna.
Nýlegar fréttir

Tæland: Börn og starfsfólk óhult
Öll börn og starfsfólk SOS Barnaþorpanna í Tælandi eru heil á húfi eftir stóra jarðskjálftann sem reið yfir landið og nágrannalönd í gær.

Utanríkisráðherra gerði rammasamning við SOS
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra skrifaði á mánudaginn undir rammasamning við SOS Barnaþorpin til fjögurra ára. Framlög ráðuneytisins til SOS á þessu tímabili nema samtals 689 milljónu...