Fréttayfirlit 18. desember 2020

Íslenskt verkefni í Tógó ber árangur

Íslenskt verkefni í Tógó ber árangur

Íslenskt verkefni SOS Barnaþorpanna sem miðar að því að draga úr kynferðislegri misneytingu gegn börnum í Tógó er strax farið að bera árangur, nokkrum mánuðum frá upphafi verkefnisins. 56% stúlkna í Tógó eru fórnarlömb kynferðslegrar misneytingar og 17,3% stúlkna verða barnshafandi fyrir 18 ára aldur.

Í nóvember 2019 ákvað utanríkisráðuneytið að styrkja þriggja ára verkefni SOS Barnaþorpanna í Tógó sem miðar að því að draga úr kynferðislegri mineytingu gegn börnum, einkum stúlkum.

Mansal og vændi

Verkefnissvæðið er Ogou-hérað norður af Lomé, höfuðborg Tógó. Þjóðbrautin til höfuðborgarinnar liggur þar í gegn með tilheyrandi vöruflutningum frá nágrannaríkjunum. Skuggahliðar þeirra eru mansal og að ungar stúlkur á svæðinu leiðast út í vændi. Að auki gera hefðir og samfélagsleg gildi það að verkum að kynferðisleg misneyting á börnum, barnagiftingar stúlkna og brottfall unglingsstúlkna úr grunnskólum vegna þungunar eru aðkallandi vandamál í Tógó.

Verkefnið er að fullu fjármagnað frá Íslandi. Styrkur utanríkisráðuneytisins er um 36 milljónir króna, eða 80% af kostnaði. Þau 20% sem upp á vantar koma frá frjálsum framlögum sem einstaklingar og fyrirtæki greiða til SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

Minnka hvatann til kynferðislegrar misneytingar

Meðal útfærsluatriða í verkefninu eru fræðsla um réttindi barna, stuðningur við fjölskyldur stúlkna til fjárhagslegs sjálfstæðis, aðgengi að vaxtalausum smálánum með það að markmiði að auka tekjumöguleika fátækra fjölskyldna og margt fleira. Allar þessar aðgerðir miða að því að draga úr umræddu ofbeldi gegn börnum.

Árangur þrátt fyrir Covid

Verkefnið hófst í mars 2020 eða um svipað leyti og heimurinn allur umhverfðist vegna Covid-19. Fyrstu mánuðirnir fóru að mestu í undirbúning og að hefja vinnu við vitundarvakningu í samfélaginu. Almennt séð hefur verkefnið gengið vel þrátt fyrir hindranir af völdum faraldursins.

Nauðgari og mannræningi sendur í fangelsi

Nefna má að 11 stúlkur, fórnarlömb kynferðisofbeldis, hafa fengið inni á bráðabirgðaheimili SOS vegna verkefnisins. Allar hafa þær fengið þá hjálp sem þær þurftu og eru nú komnar aftur í skóla eftir að hafa misst úr námi. Einni þeirra hafði verið rænt og henni nauðgað. Vegna aðkomu starfsfólks SOS tókst að hafa uppi á nauðgaranum og er hann nú kominn á bak við lás og slá. Ólíklegt er að sú niðurstaða hefði náðst ef Íslendingar hefðu ekki sett þetta verkefni af stað og fjármagnað það með utanríkisráðuneyti Íslands.

Þá hefur starfsfólk verkefnisins haft uppi á 14 öðrum stúlkum sem hættar voru í námi og komið þeim aftur í skóla eftir viðræður við foreldra þeirra og skólayfirvöld. Það er því óhætt að segja að verkefnið byrji vel.

[1] Misneyting er brot þar sem maður notar sér bágindi annars, einfeldni, sjúkdóm, það að hinn er honum háður, sálar- eða líkamsástand o.s.frv. í auðgnunarskyni, til að koma fram kynferðislegum vilja sínum eða á annan saknæman hátt.

Þú getur styrkt þetta verkefni í Tógó með stöku frjálsu framlagi hér á sos.is eða með millifærslu í heimabanka.
Reikningsnúmer: 334-26-52075
Kennitala: 500289-2529
Skýring: Tógó

Stakt framlag

Gefa stakt framlag

Stakt framlag

Þú getur styrkt starf SOS Barnaþorpanna með frjálsum, stökum framlögum þegar þér hentar. Þannig tekur þú þátt í að skapa þann fjárhagslega grunn sem gerir samtökunum kleift að byggja ný barnaþorp, sinna uppbyggingu og halda úti umbótaverkefnum um heim allan. SOS Barnaþorpin á Íslandi fjármagna fjölmörg verkefni víða um heim með frjálsum framlögum - allt í þágu barna!

Styrkja