Matthew á Haítí – mikil þörf á aðstoð
Að minnsta kosti 25% af landsvæði Haítí og um 12% þjóðarinnar hafa orðið fyrir áhrifum frá fellibylnum Matthew. Fellibylurinn skall á landinu þann 4. október og olli miklum flóðum og skemmdum. Samkvæmt upplýsingum frá ACAPS* er um ein og hálf milljón manns í þörf fyrir mannúðaraðstoð og þar af eru 750.000 taldir vera í verulegri hættu. Að minnsta kosti 61 þúsund hafa þurft að flýja heimili sín og búa nú í bráðabirgðahúsnæði á vegum yfirvalda. Þá hafa að minnsta kosti 1.000 látist af völdum fellibylsins.
Búist er við að þörf verði á meiri mannúðaraðstoð þegar langtímaáhrif fellibylsins láta á sér bera. Þá er helst litið til kólerufaraldurs sem vaxið hefur í kjölfar bylsins og mikilla skemmda á landbúnaðarafurðum sem mun skapa langtímavandamál er snúa að fæðuöryggi og lífsgæðum.
Hvað gera SOS Barnaþorpin?
SOS Barnaþorpin reka þrjú barnaþorp í landinu. Áður en fellibylurinn skall á Haítí voru varúðarráðstafanir gerðar og nú hafa SOS sett aðgerðir í gang til að draga úr neyð þeirra sem hafa orðið fyrir miklum áhrifum af hamförunum. Engin slys urðu á börnum og starfsfólki á vegum SOS af völdum fellibylsins en skemmdir urðu á heimilum og skólum. Þetta undirbúa SOS í Haítí þessa stundina:
- Mat, hreinu vatni, hreinlætisvörum og öðrum nauðsynjum verður dreift til fjölskyldna í neyð.
- Barnvæn svæði verða opnuð og þar verður heitur hádegismatur framreiddur fyrir börn á aldrinum 3-5 ára.
- Endurbyggingar og lagfæringar á skólum, barnaþorpum og öðrum svæðum SOS Barnaþorpanna sem urðu fyrir skemmdum af völdum fellibylsins. Einnig verða skemmdir á almenningsskólum sem SOS byggðu í kjölfar jarðskjálftans árið 2010 lagaðar.
Hægt er að styðja við neyðaraðstoð á Haítí með því að leggja frjálst framlag inn á reikning 334-26-52075, kt. 500289-2529 með skýringunni Haítí.
*ACAPS er skammstöfun fyrir Assessment Capacities Project sem starfar við að afla upplýsinga um aðstæður í neyðarástandi.
Nýlegar fréttir
Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum
Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Íslensk börn ...
Af hverju stappa börn niður fótunum?
Alþjóðlegur dagur barnsins er í dag á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. SOS Barnaþorpin ýttu í dag úr vör herferð með þeim tilgangi að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til...