Neyðaraðstoð fyrir börn á flótta
SOS Barnaþorpin hafa sett af stað neyðaraðstoð í fimm löndum í Evrópu með því markmiði að aðstoða flóttafólk. Samtökin eru staðsett í 134 löndum víðsvegar um heiminn og eru því í góðri stöðu til að aðstoða flóttafólk í neyð.
Gríðarlegur fjöldi fólks hefur þurft að flýja heimili sín í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum og reynir að komast til Evrópu. Þegar komið er til Evrópu dvelur flóttafólkið oftar en ekki í flóttamannabúðum við bágar aðstæður. Alls hafa hátt í 200 þúsund manns komið sjóleiðina til Evrópu en um er að ræða hættulega för þar sem bátarnir eru oftar en ekki illa búnir.
Staðreyndin er sú að stór hluti flóttafólksins eru börn, annars vegar börn sem koma með fjölskyldum sínum og hins vegar þau sem koma ein síns liðs. SOS Barnaþorpin hafa nú þegar sett af stað neyðaraðstoð til að hjálpa fólki á flótta og sem fyrr er lögð sérstök áhersla á aðstoð við börn, og þá sér í lagi flóttabörn án foreldrafylgdar. Stríðsátök í heimalandinu er oftar en ekki ástæðan fyrir flóttanum en einnig eru börnin oft að flýja barnabrúðkaup eða inngöngu í vopnasveitir.
Flóttabörn sem koma ein síns liðs eru í mikilli hættu á að lenda í höndum ofbeldismanna sem stunda barnavændi, eiturlyfjasmygl og mansal. Því er gríðarlega mikilvægt að aðstoða þau börn sem fyrst eftir komuna til Evrópu.
-SOS Barnaþorpin á Ítalíu taka við flóttabörnum sem koma ein síns liðs til landsins og þá hafa tvö neyðarskýli verið sett upp í Mantova og Vicenza. Þá verða nokkur barnvæn svæði einnig sett á laggirnar.
-SOS Barnaþorpin í Grikklandi sinna neyðaraðstoð fyrir flóttafólk ásamt því að sett verða upp neyðarskýli fyrir flóttabörn sem koma ein síns liðs til landsins.
-SOS Barnaþorpin í Austurríki ætla að gefa 100 flóttabörnum ný heimili á árinu, bæði í barnaþorpum sem nú þegar eru í landinu en einnig á ungmennaheimilum o.fl.
-SOS Barnaþorpin í Serbíu og í Makedóníu sinna neyðaraðstoð fyrir flóttafólk í löndunum.
SOS Barnaþorpin munu sinna neyðaraðstoðinni eins lengi og þörf er á en líklegast eykst þörfin mikið á næstu mánuðum og árum. Hægt er að styðja við neyðaraðstoðina með því að hringja í síma 907 -1001 (1.000 krónur) og í síma 907 - 1002 (2.000 krónur). Einnig er hægt að millifæra framlag á reikning 334-26-52075, kt.500289-2529 með skýringunni: Flóttafólk.
Nýlegar fréttir
Skrifstofa SOS lokuð milli jóla og nýárs
Skrifstofa SOS Barnaþorpanna verður lokuð milli jóla og nýárs og við opnum aftur 2. janúar. Þurfirðu að koma á framfæri erindi til okkar bendum við á netfangið sos@sos.is og við svörum þér strax og sk...
Börn og starfsfólk SOS á Gaza sluppu naumlega í árás
46 börn og ungmenni í umsjón SOS Barnaþorpanna á Gaza í Palestínu ásamt starfsfólki SOS sluppu naumlega þegar mannskæð árás var gerð 4. desember í nágrenni tjaldbúða þar sem þau dvelja. Yfir 20 manns ...