Fréttayfirlit 24. janúar 2018

Nú leitum við að upplýsingafulltrúa

SOS Barnaþorpin á Íslandi óska eftir að ráða upplýsingafulltrúa. Hlutverk hans er að koma á framfæri við landsmenn því starfi sem samtökin vinna á meðal munaðarlausra og yfirgefinna barna í fátækari ríkjum heims og þeim árangri sem af því hlýst.

Helstu  verkefni:

  • Efnisöflun, skrif og framsetning fyrir fréttablað, vefsíðu og samfélagsmiðla.
  • Samskipti við fjölmiðla, styrktaraðila og samstarfslönd.
  • Kynningar, markaðsmál og fjáröflun.
  • Samstarf við leik-, grunn- og framhaldsskóla.
  • Þar sem um lítinn vinnustað er að ræða (fimm starfsmenn) er mikilvægt að starfsmenn vinni náið sem ein heild og því þarf upplýsingafulltrúi að vera tilbúinn til að koma að nánast öllu sem viðkemur starfi samtakanna þegar og ef á þarf að halda.

Hæfiskröfur:

  • Því meiri reynsla af ofantöldu, því betra.
  • Framúrskarandi íslensku- og enskukunnátta. (Mikið af því efni sem upplýsingafulltrúi nýtir sér er á ensku og þarf því að þýða það yfir á íslensku auk þess sem talsvert er um samskipti við starfsfólk samtakanna í öðrum löndum. Þá þarf upplýsingafulltrúi að vera mjög vel ritfær á íslensku, enda viljum við að allt það efni sem frá samtökunum fer sé á vönduðu máli.)
  • Brennandi áhugi á málefninu. Góð þekking á því sakar ekki.
  • Öguð vinnubrögð, vinnusemi og geta til að starfa bæði sjálfstætt og í hóp.
  • Frumkvæði og hugmyndaauðgi.
  • Ekki er gerð krafa um neina sérstaka menntun en að sjálfsögðu er æskilegt að upplýsingafulltrúi búi yfir góðri menntun sem nýtist í starfinu.

Gert er ráð fyrir að starfshlutfall sé 80-100% og þarf upplýsingafulltrúi að geta hafið störf fljótlega.

Umsækjendur sendi ferilskrá og kynningarbréf með ástæðu umsóknar og rökstuðningi fyrir hæfi viðkomandi í starfið á netfangið: umsokn@sos.is fyrir 5. febrúar n.k.

Nánari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri Ragnar Schram í síma 564 2910.

Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál og þeim svarað.

Um SOS Barnaþorpin:

SOS Barnaþorpin voru stofnuð í Austurríki í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar og var markmiðið að taka munaðarlaus börn af götunni og gefa þeim fjölskyldu og heimili í ástríku umhverfi. Samtökin hafa starfað hér á landi frá 1989 og eru um 9.000 Íslendingar styrktarforeldrar barna í barnaþorpum auk þess sem þúsundir annarra landsmanna styrkja starf samtakanna með öðrum hætti.

Samtökin starfa í 134 löndum og reka hátt í 600 barnaþorp (um 85.000 börn búa í barnaþorpunum) auk fjölda leikskóla, grunnskóla, verknámsskóla og heilsugæslustöðva. Þá hjálpar Fjölskylduefling SOS Barnaþorpanna um 500.000 börnum og sárafátækum foreldrum þeirra að vinna sig út úr fátækt. Einnig sinna SOS Barnaþorpin neyðaraðstoð þar sem neyðin er mest hverju sinni á starfssvæðum samtakanna.

Ársreikningar SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

Höfuðstöðvar samtakanna eru í Austurríki. Sjá: http://www.sos-childrensvillages.org

 

 

 

 

Nýlegar fréttir

Framboð til stjórnar SOS Barnaþorpanna
12. apr. 2024 Almennar fréttir

Framboð til stjórnar SOS Barnaþorpanna

Aðalfundur samtakanna verður haldinn mánudaginn 13. maí kl. 17:30 í safnaðarheimili Kópavogskirkju. Tilnefningarnefnd SOS Barnaþorpanna óskar nú eftir tillögum um framboð til stjórnar.

Að gefnu tilefni vegna Heru Bjarkar
4. apr. 2024 Almennar fréttir

Að gefnu tilefni vegna Heru Bjarkar

Nokkuð hefur verið um það undanfarið að SOS Barnaþorpin á Íslandi fái skilaboð frá fólki sem lýsir vanþóknun sinni á samstarfi samtakanna við söngkonuna Heru Björk Þórhallsdóttur og þess jafnvel krafi...