Fréttayfirlit 8. janúar 2021

Ofurhetjur baka snúða til styrktar SOS Barnaþorpunum

Ofurhetjur baka snúða til styrktar SOS Barnaþorpunum

Vinirnir Arnar Rafnsson, Þórir Már Kárason, Jón Dagur Jónsson, Guðmundur Elías Arnþórsson og Hákon Rúnar Hólmgeirsson eru í fjórða bekk í Grunnskólanum í Stykkishólmi. Þeir koma reglulega saman til að baka snúða sem eru orðnir svo vinsælir að þeir seljast alltaf strax upp. Ágóðann af snúðasölunni láta þeir renna til SOS Barnaþorpanna.

Bekkurinn hefur tekið þátt í Öðruvísi jóladagatali SOS Barnaþorpanna sl. 5 ár eða frá upphafi. Strákarnir þekkja því að láta gott af sér leiða í þágu bágstaddra barna. Þar að auki eru tveir þeirra að styrkja börn hjá SOS í Afríku. Hákon og fjölskylda hans styrkja 13 ára strák í barnaþorpi á Fílabeinsströndinni og Jón Dagur og fjölskylda hans styrkja dreng í Mósambík. Það voru einmitt þeir sem fengu hugmyndina að því að baka snúða til styrktar SOS. „Við vorum í heimilisfræði og fengum hugmyndina þar.

Fjallað um baksturinn í sjónvarpinu

Strákarnir vöktu þjóðarathygli í vetur þegar fjallað var um snúðabaksturinn í sjónvarpsþættinum Landanum á RÚV. Viðbrögðin létu ekki á sér standa eftir sýningu þáttarins. „Við fengum t.d. senda fría barnabók sem heitir „Ofurhetjan”. Maðurinn sem skrifaði bókina sagði að við værum ofurhetjur,” sögðu strákarnir í fjarfundarviðtali við fréttablað SOS. Vinsældir snúðanna jukust í kjölfarið en því miður hefur kórónuveirfaraldurinn fækkað þeim tækifærum sem strákarnir hafa til að koma saman og baka. Þeir bíða þó spenntir eftir að geta haldið bakstrinum áfram.

Snúðar í heimsendingu

Bakararnir í Stykkishólmi fá um 200 snúða út úr einum bakstri og auglýsa þá á Facebook. „Við bökum kanilsnúða, pizzasnúða og klessusnúða. Við notum svo ónýtu snúðana til að smakka.” Snúðarnir eru seldir 6 saman í poka á 500 krónur og seljast alltaf fljótt upp. „Þeir sem eru ekki með Facebook missa bara af þeim,” segir Guðmundur. Þeir eru þó með einn viðskiptavin í áskrift. Strákarnir sendast oft með snúðana heim til kaupenda. „Einu sinni vorum við til hálf níu að keyra út,” segir Guðmundur en Arnar bendir á að einu sinni hafi þeir verið til klukkan tíu. „Já, þá var útivistartíminn til tíu svo við máttum vera úti til tíu,” svarar Guðmundur.

Ætluðu að kaupa kofa

Strákarnir voru að lokum spurðir hvort þeim hafi aldrei dottið í hug að nýta snúðabaksturinn til að safna sér pening og kaupa eitthvað fyrir sig sjálfa. Jón Dagur var til svara. „Við ætluðum að kaupa kofa en svo var bara best að gefa peninginn til SOS Barnaþorpanna.”

SOS Barnaþorpin á Íslandi þakka strákunum innilega fyrir þetta hugulsama framtak. Framlög þeirra verða til þess að börn sem áður voru umkomulaus fá nú kærleiksríkt heimili, fjölskyldu, menntun og eiga bjarta framtíð fyrir höndum.

Stakt framlag

Gefa stakt framlag

Stakt framlag

Þú getur styrkt starf SOS Barnaþorpanna með frjálsum, stökum framlögum þegar þér hentar. Þannig tekur þú þátt í að skapa þann fjárhagslega grunn sem gerir samtökunum kleift að byggja ný barnaþorp, sinna uppbyggingu og halda úti umbótaverkefnum um heim allan. SOS Barnaþorpin á Íslandi fjármagna fjölmörg verkefni víða um heim með frjálsum framlögum - allt í þágu barna!

Styrkja