Óháð rannsóknarnefnd tekin til starfa
Þetta ár hefur verið sérstakt fyrir SOS Barnaþorpin. Í fyrsta sinn í sögu samtakanna létu aðildarfélög rannsaka alþjóðlega stjórnendur sína á laun. SOS Barnaþorpin á Íslandi áttu frumkvæði að þeirri rannsókn ásamt SOS í Noregi og nokkrum öðrum löndum. Rannsóknin leiddi í ljós valdníðslu og óheilbrigða stjórnunarhætti á efstu stigum, líkt og við greindum frá í fjölmiðlum sl. vor. Í framhaldinu stigu forseti og varaforseti til hliðar og hafa nýir einstaklingar valist í þessi störf, auk þess sem ný alþjóðastjórn hefur verið kjörin.
Sjá líka: SOS Barnaþorpin kjósa nýjan forseta og forystusveit
Nú, þegar umtalsverðar mannabreytingar hafa átt sér stað í efstu lögum alþjóðasamtakanna, teljum við að samtökin séu á góðum stað hvað barnavernd snertir og viljum við upplýsa styrktaraðila um hvernig staðið er að þeim málum.
Óháð rannsóknarnefnd
Meðal forgangsatriða aðgerðaáætlunar sem aðalstjórn SOS samþykkti í sumar var að setja á laggirnar stöður umboðsmanna barna víða um heim til að tryggja að fullt tillit sé tekið til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Þá var alþjóðleg rannsóknarnefnd, skipuð fjórum reyndum og virtum dómurum frá jafn mörgum löndum, sett á laggirnar og tók hún til starfa 1. október sl. Hlutverk hennar er að rannsaka ákveðin mál frekar, en þau snúa að því hvort og þá hvernig samtökin og einstaka starfsmenn þeirra brugðust í málum er varða velferð og öryggi barna, spillingu og reglubrot. Þó er rétt að árétta að ekkert bendir til annars en að framlög styrktaraðila hafi skilað sér til barnanna.
Nefndina skipa eftirtaldir einstaklingar:
- Willy M. Mutunga (formaður) Fyrrverandi forseti hæstaréttar í Kenía.
- Mona Ali Khalil frá Sádí Arabíu, alþjóðalögfræðingur til 25 ára hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem hún var m.a. yfirmaður í lögfræðiþjónustu S.Þ.
- Gita Mittal frá Indlandi, fyrrverandi hæstaréttardómari í Delí og fyrsta konan sem var skipuð forseti hæstaréttar í ríkjunum Jammu og Kashmir.
- Andras Vamos-Goldman frá Ungverjalandi/Kanada, fyrrverandi forstjóri Justice Rapid Response, alþjóðlegrar stofnunar sem hefur umbylt alþjóðlegum rannsóknum á glæpum og mannréttindabrotum.
SOS Barnaþorpin búa yfir góðri aðgerðaáætlun í barnaverndarmálum. Á hverju ári er birt á heimasíðu alþjóðasamtakanna ársskýrsla yfir öll barnaverndarmál sem upp koma innan SOS og er hún aðgengileg öllum. SOS Barnaþorpin munu ekki sofna á verðinum. Við munum halda áfram eftir okkar bestu getu að tryggja að börnin í okkar umsjá njóti þeirrar verndar sem þau eiga rétt á.
Nýlegar fréttir
Af hverju stappa börn niður fótunum?
Alþjóðlegur dagur barnsins er í dag á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. SOS Barnaþorpin ýttu í dag úr vör herferð með þeim tilgangi að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til...
Börnin í Líbanon heil á húfi
SOS Barnaþorpin í Líbanon hafa staðfest að öll börn og ungmenni á framfæri samtakanna í landinu eru heil á húfi. Stríðsástandið í landinu hefur þó áhrif á börnin sem áfram er hlúð vel að.