Fréttayfirlit 19. maí 2020

Rúrik segir frá upplifun sinni af hlutverki sendiherra SOS

Rúrik Gíslason er einn af fjórum velgjörðasendiherrum SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Hann ritaði eftirfarandi pistil í nýútkomið fréttablað SOS og segir frá upplifun sinni af hlutverkinu.

Pistill frá SOS velgjörðarsendiherra

Rurik í SOS barnaþorpinu í EisenbergÉg hef verið stoltur velgjörðasendiherra fyrir SOS Barnaþorpin frá árinu 2018. Þegar forsvarsmenn SOS höfðu samband við mig og buðu mér að taka þátt fannst mér það mikill heiður og frábært tækifæri til að láta gott af mér leiða. Ég var staðráðinn í að gera eins vel og ég gat og fór fljótlega að leggja drög að því hvernig ég gæti vakið athygli á samtökunum og stutt við bakið á þeim.

Heimsótti barnaþorp

Til að kynna mér starfsemina betur heimsótti ég SOS barnaþorp í Eisenberg í Þýskalandi. Þar hitti ég marga hæfileikaríka og skemmtilega krakka sem búa saman við góðar aðstæður og lifa eðlilegu lífi þökk sé SOS Barnaþorpunum. Þar er samheldið samfélag sem hjálpast að við að gera hvern dag eðlilegan og ánægjulegan. Starfsfólkið tók vel á móti mér, sýndi mér svæðið og fylgdi mér svo inn í samkomuhús þar sem ég hitti börnin.

Við settumst niður og spjölluðum saman í dágóða stund enda um margt að ræða. Þegar liðið var á heimsóknina sungu krakkarnir fyrir mig og hæfileikarnir leyndu sér ekki. Ég varð fyrir áhrifum af þessum skemmtilegu, lífsglöðu, ólíku en samheldnu börnum. Ég fann hversu þakklát þau eru fyrir þeirra tækifæri í lífinu og hvernig þau taka engu sem sjálfsögðum hlut. Það var einstaklega gaman að heimsækja barnaþorpið og sjá hversu vel skipulögð starfsemin er.

Rúrik kom færandi hendi í SOS barnaþorp

Hannaði bol til styrktar SOS

Rúrik í SOS bolnumÁ leiðinni heim velti ég fyrir mér hvernig ég gæti orðið samtökunum að liði og vakið athygli á því góða starfi sem þar er unnið. Þar sem ég hef gaman af því að hanna föt og hef mikinn áhuga á tísku kviknaði hugmynd um að hanna bol og selja til styrktar SOS Barnaþorpunum. Ég hafði samband við Fannar og Helga hjá 66°norður sem voru strax mjög spenntir fyrir samstarfinu og hugmyndinni var hrint í framkvæmd.

Eftir fundi með hönnuðum og framleiðsluteymi fóru bolirnir í framleiðslu og komu í búðir fyrir jólin 2019 eins og lagt var upp með. Útkoman var frábær og bolirnir féllu vel í kramið hjá landsmönnum. Þeir seldust upp fyrir jólin og er ég einstaklega þakklátur fyrir viðtökurnar. Ágóðinn, 1,6 milljónir króna, rann óskiptur til SOS Barnaþorpanna á Íslandi og mun koma sér vel á þessum sérstöku tímum sem við upplifum um þessar mundir.

Mikilvægt að styðja við börnin

Það er ánægjulegt að sjá hvernig fólk hjálpast að við að hjálpa öðrum í gegnum samtök eins og SOS Barnaþorpin. Þar er unnið frábært og óeigingjarnt starf við að hjálpa börnum sem fæðast inn í bágbornar aðstæður og búa ekki við þau tækifæri og lífskjör sem börn eiga skilið.

Tími minn sem sendiherra fyrir SOS Barnaþorpin hefur verið gefandi og ánægjulegur og ég hlakka til að taka þátt í fleiri verkefnum í þágu þeirra.

Einnig vil ég þakka þeim sem leggja málefninu lið á einn eða annan hátt og á sama tíma vil ég hvetja alla til að styrkja SOS Barnaþorpin. Það hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt núna á þessum krefjandi tímum.

Kærar kveðjur
Rúrik Gíslason

Nýlegar fréttir

SOS blaðið 2024 komið út
28. nóv. 2024 Almennar fréttir

SOS blaðið 2024 komið út

SOS-blað ársins er komið út og er það aðgengilegt öllum rafrænt hér á vefsíðu okkar. Í blaðinu er viðtal við hina tíbetsku Sonam Gangsang sem ólst upp í SOS barnaþorpi á Indlandi og heimsótti fyrrvera...

Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum
22. nóv. 2024 Almennar fréttir

Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum

Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Íslensk börn ...