SOS á Íslandi sendir rúmar 3 milljónir króna til Haítí
SOS Barnaþorpin á Íslandi munu á næstu dögum senda 3.166.690 krónur til SOS á Haítí vegna neyðaraðgerða þar í kjölfar jarðskjálfa í ágúst sl. Í neyðarsöfnun í haust safnaðist 1.166.690 króna og viljum við þakka almenningi af öllu hjarta fyrir að bregðast svona vel við ákalli okkar. SOS á Íslandi bætir við tveimur milljónum króna úr neyðarsjóði samtakanna og verður þessu heildarframlagi okkar Íslendinga varið í neyðaraðgerðir á Haítí.
Enn ríkir ringulreið þar eftir skjálfta að stærðinni 7,2 sem reið yfir vesturhluta eyjunnar 14. ágúst og neyðin er mikil. SOS Barnaþorpin og fleiri hjálparsamtök eru á staðnum en helstu verkefni SOS eru að tryggja öryggi og velferð barna og fjölskyldna þeirra.
Forgangsverkefni SOS á Haítí eru m.a. uppsetning á barnvænum svæðum og að veita umkomulausum börnum stuðning og börnum sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar. Rík áhersla er á að sameina fjölskyldur. Þá hefur SOS skóli í Les Cayes verið opnaður fyrir nemendur, SOS sendir starfsfólk til að hjálpa í neyðarskýlum og verið er að setja á laggirnar fjölskylduhjálp. Samhliða þessu er SOS einnig að aðstoða starfsfólk okkar sem skjálftinn kom illa niður á.
Skólagöngu 230 þúsund barna ógnað
Raunveruleg hætta er á að yfir 230 þúsund börn hætti í skóla ef skólar opna ekki fljótt aftur. Skaðlegar afleiðingar þess yrðu óbætanlegar. Tíu þúsund pökkum með skólagögnum verður dreift til barna sem jarðskjálftinn kom verst niður á og fleiri nemendur fá aðstoð eftir því sem þörfin kemur betur í ljós.
Samkvæmt síðustu upplýsingum frá Haítí hafa 2.207 fundist látnir, 320 er enn saknað, 12.268 eru særðir, 52.952 hús eyðilögðust og 77.066 hús urðu fyrir skemmdum.
Félagshagfræðileg áhrif mikil
Félagshagfræðileg áhrif skjálftans versna með hverjum degi. Atvinnuleysi er að aukast þar sem starfsemi fyrirtækja hefur víða lagst niður eða hreinlega þurrkast út. Fjölskyldur upplifa fæðuóöryggi í auknum mæli, þunganir stúlkna á barnsaldri aukast sem og afbrot, sérstaklega meðal unglingagengja.
Skjólstæðingar SOS Barnaþorpanna á Haítí eru um 11.700 talsins en búast má við að þeim fjölgi verulega á næstunnii. Um 1300 þeirra eru börn og ungmenni í barnaþorpum en aðrir eru ósjálfbjarga barnafjölskyldur í fjölskyldueflingu.
Þrjú SOS barnaþorp eru á Haítí og er eitt þeirra, Les Cayes, er skammt frá upptökum skjálftans. Allir sluppu heilir á húfi í barnaþorpunum en miklar skemmdir urðu hins vegar á vatnstanki í barnaþorpinu í Les Cayes.
Yfir 120 Íslendingar eru SOS foreldrar barna í hinum tveimur barnaþorpunum á Haítí.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.