Svona eru Sólblómaleikskólar
Börn eru eins og sólblóm
Leikskólinn Álfaheiði er fyrsti Sólblómaleikskóli SOS Barnaþorpanna á Íslandi og var til umfjöllunar í sjónvarpsþættinum Tuttugu og einn á Hringbraut. Börn á þessum leikskólum styrkja barn hjá SOS og fylgjast með því vaxa og dafna. Sólblóm þarf næringu og umhyggju rétt eins og öll börn og þaðan kemur nafngiftin á Sólblómaleikskólum.
Leikskólinn Álfaheiði byrjaði árið 2002 að styrkja Lúkas, tveggja ára dreng í SOS-barnaþorpi í Argentínu en hann er nú orðinn tvítugur, fluttur úr barnaþorpinu og farinn að standa á eigin fótum. Þegar Lúkas varð 18 ára og yfirgaf þorpið árið 2017 tók Álfaheiði að sér að styrkja Ísabellu, eins árs stúlku í barnaþorpi í Tansaníu og er hún á fjórða aldursári í dag.
Styrktarbörn eru gott fræðsluefni fyrir börn á Íslandi
„Við erum lífsmenntaleikskóli sem þýðir að við erum að kenna börnunum lífsgildi í gegnum leik og starf. Styrktarbarnið hentar alveg sérstaklega vel sem gott fræðsluefni fyrir börn,“ segir Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir, leikskólakennari á Álfaheiði, þar sem börnin fá jafnframt fræðslu um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og almenn réttindi barna.
„Hvort sem það er styrktarbarn í Tansaníu eða barn hérna á Íslandi þá erum við að kenna þeim að tengja þetta saman. Umburðarlyndi, ábyrgð og það að hugsa svona fallega til einhvers annars sem hefur ekki allt sem við höfum," segir Steinunn.
Lærdómsríkt að velja afmælisgjöf
Börnin á Álfaheiði halda sérstaklega upp á afmæli Lúkasar og Ísabellu. „Ég man afmælisdag Lúkasar jafnvel og fjölskyldumeðlima minna. Við höldum alltaf upp á afmælið og börnin senda alltaf gjöf út. Það er alveg heilmikið ferli sem börnin læra mikið á."
Steinunn bendir á að skiljanlega geti það verið dálítið snúið fyrir 5 ára börn að skilja hvað unglingar vilji fá í afmælisgjöf. „Þegar Lúkas var orðinn 16 ára voru 5 ára börn að velja gjöf og hann vildi kannski ekki fá liti. Þetta var alltaf skemmtileg umræða."
Fá tilbúið fræðsluefni frá SOS
Þó Álfaheiði hafi gerst styrktarforeldri árið 2002 var það ekki fyrr en 2014 sem SOS Barnaþorpin á Íslandi fóru af stað með verkefnið sem heitir Sólblómaleikskóli. Það á sér fyrirmynd frá SOS Barnaþorpunum í Noregi og í dag eru 22 Sólblómaleikskólar eru á Íslandi. Leikskólarnir fá tilbúið fræðsluefni frá SOS sem þeir geta nýtt til að fræða leikskólabörnin um önnur lönd og aðra menningarheima og hversu mikilvægt það sé að bera virðingu fyrir öðrum þó svo að lifnaðarhættir og aðstæður séu öðruvísi en þau þekkja sjálf.
Safnað í bauka á afmæli styrktarbarnanna
Til að safna fyrir framfærslu barnsins er baukur á hverri deild á leikskólanum og stundum er staðið fyrir sérstökum viðburðum þegar safnað er í baukinn. „Stærsti hlutinn af framlaginu kemur fer fram á afmælisdegi styrktarbarnsins. Þá bjóðum við foreldrum og ömmum og öfum í heimsókn og börnin hafa þá yfirleitt bakað smákökur. Það er í nóvember og allir orðnir spenntir fyrir jólunum. Foreldrarnir vita af þessu og eru mjög hrifnir af þessu verkefni og flestir koma með pening í baukinn. Þá koma börnin stundum með tannálfapeninginn sinn eða hluta af afmælispeningnum sínum."
En það þarf ekki alltaf sérstakar uppákomur til að safna í baukinn. „Til dæmis bara í morgun þá komu tvær stelpur með pening í baukinn án þess að það væri tengt einhverju öðru. Þetta bara er í huga þeirra. Þetta sýnir svo mikinn kærleika og við erum stolt af því," bætir Steinunn við.
Nýlegar fréttir
SOS blaðið 2024 komið út
SOS-blað ársins er komið út og er það aðgengilegt öllum rafrænt hér á vefsíðu okkar. Í blaðinu er viðtal við hina tíbetsku Sonam Gangsang sem ólst upp í SOS barnaþorpi á Indlandi og heimsótti fyrrvera...
Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum
Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Íslensk börn ...