Þjónusta við styrktaraðila að komast í fyrra horf

Aftur hægt að senda bréf og pakka
Póstþjónusta er nú að komast í samt lag víðast hvar í heiminum eftir heimsfaraldurinn og mæla SOS Barnaþorpin ekki lengur gegn því að SOS-foreldrar sendi bréf eða pakka til styrktarbarna sinna. Sumsstaðar gæti póstþjónusta þó enn verið óáreiðanleg og mælum við með því að upplýsinga um slíkt sé leitað hjá Póstinum.
Nafn styrktarbarnsins má ekki rita utan á pakkann heldur skal setja nafnið á miða inn í pakkann. Á þeim miða þarf að vera SOS-númer barnsins og SOS-tilvísunarnúmer styrktarforeldris ásamt eftirnafni, aðeins með enskum stöfum.
Við vekjum sérstaka athygli á að ekki er hægt að senda bréf eða pakka til styrktarbarna í Úkraínu og það sama á við um Sri Lanka og barnaþorpið í Makelle í Eþíópíu en þar er ástandið ekki talið öruggt. Við minnum á að framtíðarreikningur SOS er frábær leið til að auka möguleika styrktarbarnsins í framtíðinni.
Sumarbréfin aftur í fyrra horf
Heimsfaraldurinn hafði m.a. þau áhrif að bréfasendingar með upplýsingum um börnin til SOS-foreldra féllu niður í óákveðinn tíma en þau mál horfa nú almennt til betri vegar. Barnaþorpin eru nú þegar farin að senda sumarbréfin til SOS-foreldra með upplýsingum um styrktarbörnin. Sumir hafa þegar fengið sumarbréfin sín en aðrir geta þurft að bíða eftir þeim allt þangað til í september.
Heimsóknir í barnaþorpin
SOS-foreldrarar hafa átt rétt á að heimsækja styrktarbörnin sín í barnaþorpin og er sá réttur enn í gildi. Hins vegar mælum við ekki með slíkum heimsóknum á meðan kórónuveiran er eins óútreiknanleg og raun ber vitni. Við viljum taka skýrt fram að allar fyrirhugaðar heimsóknir íslenskra SOS-foreldra í barnaþorpin þarf að sækja um sérstaklega á skrifstofu SOS á Íslandi. Það fer svo eftir ástandinu hjá SOS í því landi sem um ræðir hvort leyfi er veitt til heimsóknar.
SOS Barnaþorpin setja velferð og hagsmuni barnanna alltaf í forgang. Kærar þakkir fyrir skilninginn og stuðninginn.
Nýlegar fréttir

Tæland: Börn og starfsfólk óhult
Öll börn og starfsfólk SOS Barnaþorpanna í Tælandi eru heil á húfi eftir stóra jarðskjálftann sem reið yfir landið og nágrannalönd í gær.

Utanríkisráðherra gerði rammasamning við SOS
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra skrifaði á mánudaginn undir rammasamning við SOS Barnaþorpin til fjögurra ára. Framlög ráðuneytisins til SOS á þessu tímabili nema samtals 689 milljónu...