Fréttayfirlit 25. mars 2020

Tilkynning og ákall vegna Covid-19

Kæri styrktaraðili SOS Barnaþorpanna. Við viljum þakka þér fyrir þinn stuðning við munaðarlaus og yfirgefin börn á þessum erfiðu tímum. Hann kemst til skila og nýtist börnunum. 

Börnin þurfa á stuðningi okkar að halda nú sem aldrei fyrr og þó svo að athygli okkar beinist eðlilega mest að áhrifum veirunnar á þjóðfélagið okkar og heiminn allan megum við ekki gleyma börnunum sem eiga engan að og treysta á SOS Barnaþorpin og styrktarforeldra sína.

Við viljum upplýsa þig um áhrif Covid-19 á SOS Barnaþorpin, til hvaða ráðstafana við erum að grípa og hvað við erum að gera til að vernda börnin og starfsfólk samtakanna.

SOS kemur til móts við styrktaraðila í fjárhagserfiðleikum

Sértu í erfiðleikum með mánaðarlegar styrktargreiðslur þínar viljum við gjarnan heyra frá þér og kanna hvað við getum gert til að koma til móts við þig á þessum erfiðu tímum án þess að það bitni um of á börnunum. Við erum til staðar til að aðstoða þig við það. Það getur t.d. verið betra að lækka styrkinn tímabundið en að hætta honum.

Öryggi í fyrirrúmi hjá SOS

SOS Barnaþorpin hafa í forgangi að tryggja öryggi allra barna og starfsfólks barnaþorpanna eftir tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. 559 SOS barnaþorp eru í 126 löndum og í hverju landi fyrir sig fer starfsfólk SOS eftir tilmælum heilbrigðisyfirvalda. Hér má lesa nánar um hvernig SOS Barnaþorpin eru að vernda börnin.

Frá SOS í PerúÞetta er hægt vegna þín

Það er þér og öðrum styrktaraðilum SOS að þakka að við getum gripið til allra nauðsynlegra ráðstafana til að vernda börnin, fjölskyldurnar og starfsfólkið. Þitt framlag er afar mikilvægt á þessum erfiðu tímum sem krefjast svo mikils af okkur öllum.

Börn í Afríku í mikilli hættu

Hvergi í heiminum eru lönd eins illa í stakk búin til að taka á móti útbreiðslu Covid-19 veirunnar og í Afríku þar sem útbreiðslan er nú farin að stigmagnast. Um helmingur allra munaðarlausra barna í Afríku er talinn búa hjá öfum og ömmum. Eldra fólk er í áhættuhópi vegna veirunnar og því er viðbúið að fjölmörg börn geti misst forráðfólk sitt á næstu mánuðum.

SOS á Íslandi úthlutar 15 milljónum króna vegna Covid-19

Mjög fljótlega varð ljóst að Covid-19 myndi hafa áhrif á fjáröflun SOS Barnaþorpanna um allan heim. Erfiðara og erfiðara hefur orðið að afla nýrra styrktaraðila og framlög hafa dregist saman. Kostnaður samtakanna er að hækka vegna faraldursins og viðbúið er að skjólstæðingum muni fjölga meðan ástandið varir. 

Vegna þess hafa SOS Barnaþorpin á Íslandi ákveðið að úthluta 15 milljónum króna úr neyðarsjóði til SOS í þeim löndum þar sem þörfin er mest. 

Hjálpaðu okkur að vernda börnin fyrir áhrifum Covid-19!

SOS Barnaþorpin búa sig nú undir það sem koma skal og vonandi standa sem flestir með okkur í baráttunni sem framundan er. Sérstök söfnun er hafin til að mæta þessum áskorunum við að sinna þörfum og öryggi barnanna á sem bestan hátt.

STYRKJA HÉR!

Hér geturðu greitt stakt eða mánaðarlegt framlag þar til í september 2020 þegar þessar greiðslur stöðvast.

Einnig er hægt að leggja frjáls framlög beint inn á reikning SOS
Reikningsnúmer: 130-26-9049 Kennitala: 500289-2529

Svona geturðu haft samband við SOS

Þar sem neyðarstig almannavarna er í gildi er skrifstofan okkar í Hamraborg í Kópavogi lokuð tímabundið en starfsemin er þó í fullum gangi.

Þú getur þó haft samband við okkur eftir ýmsum leiðum, t.d. í síma 564-2910, á heimasíðu SOS með því að smella á appelsínugula skilaboðagluggann „Vantar þig aðstoð", með tölvupósti á netfangið sos@sos.is eða með því að senda okkur skilaboð í skilaboðahólf Facebook síðu okkar.

Öllum erindum er svarað við fyrsta tækifæri.

 Póstlisti SOS á Íslandi

Að lokum viljum við hvetja þig til að skrá þig á póstlistann okkar og fá þannig send regluleg fréttabréf SOS á Íslandi.

Kærar þakkir fyrir stuðninginn við munaðarlaus og yfirgefin börn.

Starfsfólk SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

Nýlegar fréttir

Á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu
23. apr. 2024 Almennar fréttir

Á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu

SOS Barnaþorpin á Íslandi senda á næstu dögum tíu milljónir króna til SOS í Palestínu vegna neyðaraðgerða á Gaza. Rúmar átta milljónir króna hafa safnast í söfnun SOS á Íslandi sem hófst í febrúar og ...

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna 2024
22. apr. 2024 Almennar fréttir

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna 2024

Boðað er til aðalfundar SOS Barnaþorpanna mánudaginn 13. maí kl.17:30 í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Hábraut 1a (gegnt Gerðasafni). Til þess að félagi geti nýtt félagsleg réttindi sín á aðalfundi s...