Tilkynning til styrktaraðila SOS á Íslandi
Undanfarið höfum við verið að fást við alvarlegt mál sem við teljum mikilvægt að upplýsa styrktaraðila SOS Barnaþorpanna um. Við segjum reglulega frá öllu því jákvæða sem áunnist hefur í okkar starfi en við störfum með gegnsæi að leiðarljósi og upplýsum styrktaraðila því að sjálfsögðu líka þegar okkur hefur mistekist.
Tilkynningar hunsaðar
Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna fengu nýlega niðurstöður rannsókna tveggja utanaðkomandi (óháðra) aðila. SOS á Íslandi var í hópi nokkurra aðildarlanda SOS sem höfðu frumkvæði að annarri rannsókninni eftir ábendingar uppljóstrara þess efnis að tilkynningar þeirra til alþjóðasamtakanna um alvarleg brot hefðu ítrekað verið hunsaðar. Skýrslurnar leiddu því miður í ljós að alþjóðsamtökin hafa ekki að fullu staðið við loforð um að tryggja vernd allra barna og nýtingu á fjármunum á þann skilvirka hátt sem strangar verklagsreglur SOS segja til um. Niðurstöðurnar leiddu í ljós einstök mál sem tengjast ofbeldismálum, spillingu og fjármálamisferli.
Við viljum áður en lengra er haldið taka skýrt fram við styrktaraðila SOS á Íslandi, að ekkert bendir til annars en að fjárframlög frá Íslendingum til SOS hafi skilað sér rétta leið. Jafnframt er ekkert sem bendir til þess að þau brot gegn börnum sem getið er um í þessum skýrslum, tengist styrktarbörnum SOS-foreldra á Íslandi.
Við hörmum niðurstöður þessarra skýrslna. Svona hegðun er með öllu ólíðandi og þess vegna tókum við þátt í því að varpa ljósi á raunverulega stöðu mála. Starf okkar er að annast börn og að meðhöndla framlög styrktaraðila sem bera til okkar traust. Síðast en ekki síst er þetta grafalvarlegt fyrir þolendur í þessum málum. Við hjá SOS Barnaþorpunum, bæði á Íslandi og um heim allan, tökum fulla ábyrgð á því sem gerst hefur og ætlum að leggja allt í sölurnar til að draga úr líkum á að slíkt endurtaki sig.
Aðgerðaáætlun
Alþjóðastjórn SOS Barnaþorpanna, æðsta vald samtakanna á alþjóðavettvangi, samþykkti á aukafundi í síðustu viku aðgerðaáætlun sem felur í sér að bæta þolendum þann skaða sem samtökin hafa valdið þeim og minnka líkurnar á því að slík brot geti endurtekið sig.
Þannig samþykkti alþjóðastjórnin að:
- setja á fót embætti umboðsmanna með sérstaka ábyrgð á að fylgja eftir öllum málum er varða barnavernd,
- stofna bótasjóð fyrir þolendur
- og setja á laggirnar óháða nefnd með utanaðkomandi sérfræðingum sem á að gera tillögur að úrbótum og nauðsynlegum breytingum á stjórnun samtakanna á alþjóðavettvangi.
Þeir starfsmenn og stjórnendur alþjóðasamtakanna og/eða einstakra aðildarfélaga sem bera ábyrgð í umræddum málum munu ekki komast undan því að axla abyrgð og eru þau mál í ferli.
Áfall sem eflir vitundarvakningu innan SOS
Það er skemmst frá því að segja að þessar afhjúpanir hafa skekið samtökin og starfsfólk SOS í öllum 137 aðildarlöndunum. Saman ætlum við að gera nauðsynlegar hreinsanir og sjá til þess að þetta eyðileggi ekki það mikilvæga starf sem samtökin vinna svo við getum tryggt að fleiri börn fái þá vönduðu umönnun sem þau þurfa.
SOS Barnaþorpin annast tæplega 66 þúsund börn og ungmenni í beinni umsjá og hjálpa um 300.000 börnum og sárafátækum fjölskyldum þeirra. Hjá samtökunum starfa tæplega 40 þúsund manns. Langflestir þeirra vinna af heilindum til að tryggja að börn fái það öryggi og þá umönnun sem þau þurfa. Það var okkar trú að strangt regluverk samtakanna kæmi í veg fyrir brot af þessu tagi en við höfum nú komist að raun um annað og það gefur okkur tækifæri á að gera bót á. Þökk sé hugrökkum uppljóstrurum og vitnum hafa alvarlegir annmarkar á stjórnunar- og eftirlitskerfum samtakanna og yfirhylmingar og aðgerðarleysi háttsettra stjórnenda verið dregin fram í dagsljósið.
SOS Barnaþorpin vinna eftir tilmælum Sameinuðu þjóðanna um umönnun barna. Samtökin fara eftir alþjóðlegum leiðbeiningum og verklagsreglum til að koma í veg fyrir, uppgötva og bregðast við óæskilegri hegðun. Samtökin gefa á hverju ári út skýrslu um öll þau brot sem hafa verið tilkynnt og meðhöndluð. Núna þurfum við að gera okkur grein fyrir því að regluverkið okkar brást.
Ólíklegt að styrktarbörn Íslendinga séu meðal þolenda
Við getum fullvissað þig um að við tökum þessu mjög alvarlega og munum fylgja því eftir að rétt verði unnið úr málum í þágu þeirra barna sem við önnumst. Við skiljum líka ef þú hefur áhyggjur af styrktarbarni þínu, ef þú ert SOS-foreldri. Ekkert bendir til þess að um styrktarbörn Íslendinga sé að ræða í þessum tilvikum. Við biðjum þig þó að virða persónuverndarrétt barnanna og setja þig ekki í samband við þitt styrktarbarn út af þessu máli.
Ef þú hefur einhverjar spurningar er þér velkomið að hafa samband við okkur á skrifstofu SOS í síma 5642910 eða þá að senda okkur tölvupóst á netfangið sos@sos.is
Með kærleikskveðju og takk fyrir að standa með okkur á erfiðum tímum í tiltekt og endurbótum.
Ragnar Schram
framkvæmdastjóri SOS á Íslandi
Nýlegar fréttir
Af hverju stappa börn niður fótunum?
Alþjóðlegur dagur barnsins er í dag á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. SOS Barnaþorpin ýttu í dag úr vör herferð með þeim tilgangi að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til...
Börnin í Líbanon heil á húfi
SOS Barnaþorpin í Líbanon hafa staðfest að öll börn og ungmenni á framfæri samtakanna í landinu eru heil á húfi. Stríðsástandið í landinu hefur þó áhrif á börnin sem áfram er hlúð vel að.