Vegna jarðskjálfta á Haítí!
Yfir 120 Íslendingar eru SOS foreldrar barna í SOS barnaþorpum á Haítí. Eins og mörgum er kunnugt um reið jarðskjálfti að stærðinni 7,2 yfir vesturhluta Haítí á laugardaginn með þeim afleiðingum að á annað þúsund manns hafa fundist látin. Þrjú SOS barnaþorp eru á Haítí og eru allir heilir á húfi í þeim, bæði börnin sem þar búa og starfsfólk.
Miklar skemmdir urðu hins vegar á vatnstanki í SOS barnaþorpinu í Les Cayes. SOS Barnaþorpin hafa sett saman teymi fagfólks sem er nú að meta þörfina á aðstoð í barnaþorpinu og nágrenni þess. Til að mynda hefur verið settur saman hópur sálfræðinga sem veitir áfallahjálp. Framundan er áframhaldandi starf við að tryggja öryggi þeirra.
Þjóðin var enn að jafna sig eftir jarðaskjálfta sem reið yfir Haítí árið 2010. Ljóst er að skjálftinn á laugardaginn er enn eitt reiðarslagið fyrir þjóðina sem hefur mátt þola ofbeldi og pólitískan óstöðugleika um langt tímabil. SOS Barnaþorpin og fleiri hjálparsamtök eru við hjálparstörf á Haítí og verða það áfram.
Við þökkum SOS foreldrum hér á Íslandi af öllu hjarta fyrir stuðninginn við munaðarlaus og yfirgefin börn.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.