Verðlaunafé Rúriks í þýsku sjónvarpi rann til SOS á Íslandi
SOS Barnaþorpunum á Íslandi hafa undanfarna mánuði borist peningagreiðslur frá sjónvarpsstöðvum í Þýskalandi sem nema samtals tæplega 2,2 milljónum króna. Um er að ræða fjárhæðir sem Rúrik Gíslason, velgjörðasendiherra SOS á Íslandi, vann sér inn í spurninga- og þrautaþáttum þar sem verðlaunafé keppenda rennur til góðgerðarmála.
Eins og margir vita eflaust hefur Rúrik verið afar öflugur í að vekja athygli á starfsemi SOS Barnaþorpanna sem hann lætur sig varða af öllu hjarta. Hann kaus að láta vinningsfé sitt í umræddum sjónvarpsþáttum í Þýskalandi renna til SOS á Íslandi. Um er að ræða þrjár greiðslur, rúmar 41 þúsund krónur, rúmar 462 þúsund krónur og rúmar 1,6 milljónir króna.
Upphæðinni verður ráðstafað í fjölskyldueflingu SOS í Malaví sem SOS á Íslandi er í ábyrgð fyrir og heimsótti Rúrik einmitt verkefnasvæðið þar í landi í janúar á þessu ári.
Sjá einnig: Rúrik heimsótti fjölskyldueflingu í Malaví
Braut flösku
Rúrik vann hæstu fjárhæðina í spurninga- og þrautaþættinum Hirschhausens Quiz des Menschen sem sýndur var í maí á sjónvarpsstöðinni Das Erste, 1,6 milljónir króna. Þar gekk á ýmsu eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði frá keppninni „Flöskuorgelið". Rúrik fékk það verkefni að spila lagið „Seven Nation Army" eftir hljómsveitina „The White Stripes" á flöskur sem fylltar voru með mismiklu magni af vatni. Svo ákafur var Rúrik í tónlistarflutningi sínum að hann braut eina flöskuna.
Liðsfélagar og mótherjar Rúriks
Liðsfélagar Rúriks voru sjónvarpskonan Enie van de Meiklokjes og spjallþáttastjórnandinn Frank Plasberg. Þau töpuðu 4-2 fyrir mótherjum sínum, tónlistamanninum Smudo, sjónvarpskonunni Judith Williams og leikaranum Samuel Koch. Meðlimir sigurliðsins fengu 30.000 evrur hver sem renna til góðgerðarmála en meðlimir tapliðsins fengu 10.000 evrur hver.
Þáttinn má sjá í heild sinni hér.
SOS Barnaþorpin þakka Rúrik kærlega fyrir framlögin.
Mynd: WDR/Ben Knabe
Nýlegar fréttir
Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum
Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Íslensk börn ...
Af hverju stappa börn niður fótunum?
Alþjóðlegur dagur barnsins er í dag á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. SOS Barnaþorpin ýttu í dag úr vör herferð með þeim tilgangi að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til...