Viljum ekki glata annarri kynslóð
Yfirmaður neyðaraðstoðar SOS Barnaþorpanna, Andreas Papp, útskýrir hvernig SOS geta hjálpað sýrlenskum börnum sem þekkja vart neitt annað en hörmungar og áföll.
Andreas Papp er nýkominn heim frá Sýrlandi þar sem hann kynnti sér aðgerðir og árangur neyðaraðstoðar SOS Barnaþorpanna í Damaskus og Aleppo.
Hvernig myndir þú lýsa ástandi þeirra barna sem þú hittir?
Börnin horfa á mann með tómum og sorgmæddum augum. Þegar maður spyr þau hvað þau vanti og hvers þau óski sér þá biðja þau um fótbolta eða eitthvað til að leika sér með eða fatnað. Þá sárvantar fjölmörg börn skó og léttan fatnað, þar sem sumarið er á næsta leyti.
Skólamál eru í miklum ólestri og börnin vantar bæði skóla og námsgögn svo þau geti stundað nám og foreldrarnir einbeitt sér að vinnu og tekjuöflun fyrir heimilin.
Hverjar metur þú helstu þarfir barnanna?
Börnin í Aleppo hafa þurft að upplifa skelfilega hluti. Á meðan bardögum stóð gátu börnin ekki yfirgefið heimili sín. Þegar þau loksins komust út blasti við þeim öll eyðileggingin, ekki bara í götunni þeirra, heldur í öllu hverfinu og borgarhlutanum. Mörg þeirra barna sem komið hefur verið með til SOS, t.d. þau sem nú dvelja á bráðabirgðaheimilum SOS í Damaskus, hafa hörmulegar sögur að segja. Sum barnanna hafa horft á foreldra sína drepna og sum fundu lík foreldra sinna eftir að bardögum linnti. Áfallastreytan og angistin er þess eðlis að við þurfum að bregðast við strax með aðgerðum, sálfræðimeðferðum, áfallahjálp o.fl. Við þurfum að þjálfa upp áfallahjálparteymi svo hægt sé að greina áfallastreytu og hefja meðferð.
Þá hefur fjöldi lækna og hjúkrunarfræðinga flúið vegna átakanna og ekki snúið aftur. Mikill skortur er á heilbrigðisstarfsfólki, m.a. barnalæknum og kvensjúkdómalæknum. SOS Barnaþorpin eru með lækna og hjúkrunarfræðinga á sínum snærum sem sinna börnum og konum í Aleppo. Ég hef séð hvernig konur og börn bíða í röðum eftir því að fá að hitta læknana.
Hvernig er staðan í Aleppo?
Í austurhluta borgarinnar er ekkert rafmagn og ekkert rennandi vatn. SOS Barnaþorpin eru með 16 stóra vatnstanka í borginni og það hjálpar þeim sem enn eru þar, en þó ekki öllum. Það þarf meira vatn.
Fáir eru á ferli í austurhlutanum. Maður sér fólk reyna að gera illa farin heimili sín „þjófheld“ þar sem mikið er um gripdeildir. Sum húsin eru ónýt en ekkert hús, ekki eitt einasta, hefur sloppið við skemmdir. Fólk vill flytja aftur heim en það er hrætt við sprengjur og veit ekki hvernig standa eigi að uppbyggingu.
Þegar við vorum að keyra út úr austurhlutanum og inn í vesturhlutann var eins og lífið tæki við á ný. Skyndilega hljóp hópur barna út á götu og við komumst hvergi. Skóla var að ljúka og börnin hlupu út til að leika sér. Það er þetta sem við þurfum. Við munum glata enn annarri kynslóð ef við göngum ekki strax í það að mennta börnin. Við þurfum líka að hjálpa þeim í gegnum áföllin sem þau hafa orðið fyrir og geta orðið þeim þung byrði allt lífið ef ekkert er að gert.
Hvernig er ástand skóla og spítala?
Allir skólar og spítalar sem ég sá voru ónýtir. Ég heimsótti einn illa farinn skóla sem SOS Barnaþorpin hyggjast endurreisa en vonir standa til þess að við getum endurreist nokkra skóla í Aleppo.
Hvernig er staðan á starfsfólki SOS?
Þau eru öll af vilja gerð og metnaðarfull. En þau þurfa mun meiri stuðning í formi þjálfunar og fjármagns. Einn starfsmaður okkar í Aleppo sagði mér að hann væri að setja saman hóp sjálfboðaliða til að greina áfallastreituröskun hjá börnum og skipuleggja áfallahjálp. Þetta er einmitt hugarfarið sem við þurfum og við þurfum að styðja við bakið á þessu fólki. Við þurfum að sjá þessu fólki fyrir þeim úrræðum og gögnum sem það sárvantar.
Nýlegar fréttir
Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum
Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Íslensk börn ...
Af hverju stappa börn niður fótunum?
Alþjóðlegur dagur barnsins er í dag á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. SOS Barnaþorpin ýttu í dag úr vör herferð með þeim tilgangi að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til...