Fréttayfirlit 20. mars 2024

Stærsta erfðagjöf í sögu SOS Barnaþorpanna

Stærsta erfðagjöf í sögu SOS Barnaþorpanna

SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa fengið stærstu erfðagjöf í sögu samtakanna eftir að Landsréttur úrskurðaði erfðaskrá Baldvins Leifssonar vél-, renni- og bátasmiðs, gilda og SOS Barnaþorpin þar með aðalerfingja hans. Þetta var endanlega staðfest af Hæstarétti í síðustu viku þegar beiðni um kæruleyfi var hafnað.

Staðfesti Landsréttur þar með úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, þess efnis að SOS Barnaþorpin væru lögmætur bréferfingi Baldvins sem lést í maí 2022, áttræður að aldri. Baldvin var ókvæntur og barnlaus. Ekki liggur enn fyrir hve mikið kemur í hlut SOS Barnaþorpanna þar sem kostnaður við dómsmál og utanumhald dánarbús liggja ekki fyrir. Einnig á eftir að selja íbúð úr dánarbúinu. Ljóst er þó að eignir þess eru yfir 100 milljónir króna. 

SOS Barnaþorpin eru óendanlega þakklát Baldvini fyrir að hafa ráðstafað eigum sínum í þágu bágstaddra barna, enda munu fjölmörg börn njóta góðs af og öðlast betra líf fyrir vikið. SOS Barnaþorpin eru á almannaheillaskrá hjá Skattinum og eru því undanþegin erfðafjárskatti. 

Forsaga þessarar erfðagjafar er sú að árið 2006 kom Baldvin á skrifstofu SOS Barnaþorpanna og ræddi þá hugmynd sína við þáverandi framkvæmdastjóra, Ullu Magnússon, að stofna sjóð fyrir börn í SOS barnaþorpum. Ekkert varð af þeim hugmyndum svo vitað sé, en Baldvin var styrktaraðili samtakanna um árabil.  

Tilkynning um arfinn barst seint

Árið 2007 mætti Baldvin á skrifstofu Sýslumannsins í Kópavogi með erfðaskrá sína, sem hann undirritaði í viðurvist lögbókanda. Í erfðaskránni tilgreindi Baldvin að SOS Barnaþorpin skyldu erfa húsnæði í hans eigu, sem og lausafé. Einnig kvað erfðaskráin á um að SOS Barnaþorpin skyldu annast útför hans.  

Þrátt fyrir ákvæði erfðaskrárinnar var SOS Barnaþorpunum ekki tilkynnt um hana fyrr en rúmum fjórum mánuðum eftir andlát Baldvins. Kom sú vitneskja þannig til að Sýslumaður sendi SOS Barnaþorpunum afrit af höfnun embættisins á beiðni lögmanns eina lögerfingja Baldvins um einkaskipti dánarbúsins. 

Tekist á um arfinn

Eftir að Sýslumaður hafnaði beiðni ættingjans um einkaskipti krafðist ættinginn þess að erfðaskráin yrði úrskurðuð ógild og hann sjálfur myndi erfa eignir Baldvins. Þeirri kröfu ættingjans hafa bæði Héraðsdómur og Landsréttur nú hafnað eins og fyrr segir. 

Lögmaður lögerfingja Baldvins óskaði þá eftir leyfi til að fá að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar en Hæstiréttur taldi ekki ástæðu til þess og hafnaði þeirri beiðni. 

Stjórn SOS Barnaþorpanna mun taka ákvörðun um ráðstöfun arfsins við fyrsta tækifæri eftir að skiptum búsins hefur verið lokið. 

Undirstrikar mikilvægi faglegra vinnubragða við gerð erfðaskráa 

Mál þetta, og sú leið sem það hefur farið í dómskerfinu, undirstrikar mikilvægi þess að fólk vandi sig við gerð erfðaskráa svo vilji þess sé augljós og óumdeildur eftir að það hefur kvatt. Einnig sýnir það mikilvægi þess að Sýslumansembætti viðhafi fagleg vinnubrögð við vottanir og meðferð erfðaskráa, en bæði var brotalöm á undirritun lögbókanda og upplýsingagjöf til bréferfingja. Vönduð vinnubrögð og skýr vilji arfleifenda flýta fyrir skiptum dánarbúa og lögfræðikostnaður verður lægri.  

SOS Barnaþorpin hafa lengi hvatt fólk til að kynna sér þessi mál, að taka sjálft ákvörðun um ráðstöfun eigna sinna eftir sinn dag, í stað þess að eftirláta öðrum að ákveða það. Í ákveðnum tilvikum getur aðgerðarleysi jafnvel leitt til þess að Ríkissjóður fái allar eignir dánarbús.

Það er mat samtakanna útfrá erfðaskrá Baldvins að það hafi verið honum hjartans mál að bágstödd börn skyldu njóta góðs af arfleifð hans. Ekki kom því annað til greina en að verja það sem blasir við að hafi verið einlægur vilji hans og dómstólar hafa nú staðfest. Okkur þykir miður að komið hafi til málaferla og vottum við aðstandendum Baldvins samúð vegna fráfalls hans. 

Sjá nánar um erfðagjafir til SOS Barnaþorpanna hér á heimasíðu samtakanna.

SOS Barnaþorpin settu kross á leiði Baldvins að beiðni hans í erfðaskrá SOS Barnaþorpin settu kross á leiði Baldvins að beiðni hans í erfðaskrá
Erfðagjöf

Erfðagjöf

Erfðagjöf

Erfðagjafir hafa gert samtökunum kleift að hjálpa mun fleiri munaðarlausum og yfirgefnum börnum en ella. Sá sem gefur erfðagjöf tekur sjálfur ákvörðun um ráðstöfun eigna sinna í stað þess að eftirláta öðrum þá ákvörðun.

Nánar