Stuðningur án landamæra
Engu líkara er en að Jón Pétursson hafi vitað að hann ætti skammt eftir ólifað þegar hann ákvað árið 2018 að styrkja SOS Barnaþorpin um 10 milljónir króna. Jón lést í janúar 2019 og skilur eftir sig þá arfleifð að hafa tryggt fyrrverandi syrktarbörnum sínum örugga framtíð.
Systkini sem ólust upp í SOS barnaþorpinu í Santa Maria í Brasilíu fara fögrum orðum um SOS-styrktarforeldri sitt, Jón Pétursson, í minningargrein sem birt var á heimasíðu SOS í Brasilíu. Jón varð styrktarforeldri þeirra árið 1991 þegar þau voru tveggja og fimm ára.
Var okkur raunverulega sem faðir
Þetta var upphafið á fallegu sambandi milli Jóns og systkinanna sem nefndu hann Pétur frænda, (Uncle Peter) og heimsótti hann þau margoft til Brasilíu. „Ég minnist þess þegar mér var sagt að hann hafi valið að styrkja okkur eftir að hafa séð myndir af okkur. Honum þótti strax vænt um okkur og tók okkur að sér sem guðfaðir," segir systirin Graciane sem er 31 árs í dag og á tvö börn með sambýlismanni sínum, fjögurra og níu ára.
Bróðir Graciane er Leomar sem í dag er 34 ára og hefur einnig komið sér upp fjölskyldu. Leomar á fjögurra ára son með sambýliskonu sinni og hugsar alltaf hlýlega til Jóns. „Frá því hann hitti okkur í fyrsta skipti sýndi hann okkur umhyggju og athygli. Hann var okkur raunverulega sem faðir."
Segja börnum sínum sögur af Jóni
Graciane og Leomar segja börnunum sínum reglulega sögur af Jóni sem þau segja að hafi kennt sér ýsmislegt. Meðal annars að útbúa íslenska matarrétti. Jón var viðstaddur margar gleðistundir í lífi barnanna í þorpinu í Santa Maria eins og skólaútskriftir. Hann var dýrkaður og dáður af börnunum og starfsfólkinu í Santa Maria barnaþorpinu og er enn þann dag í dag. Hann var staddur þar á 72 ára afmælisdaginn sinn árið 2006 og sungu börnin þá fyrir hann afsmælissönginn og bökuð var afmælisterta.
Tryggði framtíðaröryggi systkinanna
Jón var svo sannarlega með hjartað á réttum stað. Hann lét sig alltaf varða hag umkomulausra barna og styrkti alls átta börn í Brasilíu gegnum SOS Barnaþorpin. Árið 2018 hafði Jón samband við skrifstofu SOS á Íslandi og var heilsu hans þá farið að hraka.
Engu líkara er en að hann hafi vitað að hann ætti skammt eftir ólifað. Hann hafði ákveðið að gefa 10 milljóna króna framlag sem skiptist þannig að þrjár milljónir fóru til SOS á Íslandi, þrjár milljónir til barnaþorpsins í Santa Maria og svo gaf hann Graciane og Leomar sínar hvorar tvær milljónirnar svo þau gætu m.a. tryggt sér og fjölskyldum sínum öruggt húsnæði.
Ræddi við systkinin skömmu fyrir andlátið
Jón fékk hjartnæmt bréf frá Graciane, Leomar og börnunum í barnaþorpinu um sumarið 2018. Þau tjáðu honum væntumþykju sína og lýstu áhyggjum sínum af heilsufari hans með von um bata.
Í janúar 2019 kom Jón á skrifstofu SOS í Hamraborg og átti myndsímtal við Graciane, Leomar, framkvæmdastjóra barnaþorpsins í Santa Maria og eiginkonu hans en þau voru nánir vinir Jóns. Tár féllu og það var greinilegt hve vænt Jóni þótti um börnin sín og þeim um hann.
Jón lést nokkrum dögum síðar á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund.
Jóns minnst í Brasilíu
Í minningarorðum á heimasíðu SOS Barnaþorpanna í Brasilíu segir að fjarlægð, menningarmunur og landamæri hafi ekki verið nein hindrun fyrir Jón í að sýna væntumþykju sína og stuðning við umkomulaus börnin í Brasilíu og hjálpa við að veita þeim tækifæri í lífinu.
„SOS Barnaþorpin í Brasilíu heiðra þá ást og samstöðu sem Jón sýndi okkur og þakka honum stuðninginn öll þessi ár."
Hér má lesa tvö viðtöl sem Jón veitti fréttablaði SOS Barnaþorpanna á Íslandi.
Viðtal við Jón frá því skömmu fyrir andlát hans: „Þetta er svo gefandi."
Viðtal við Jón í 1. tbl. fréttablaðs SOS árið 2007: Heimsótti börnin til Brasilíu (pdf)
Nýlegar fréttir
SOS blaðið 2024 komið út
SOS-blað ársins er komið út og er það aðgengilegt öllum rafrænt hér á vefsíðu okkar. Í blaðinu er viðtal við hina tíbetsku Sonam Gangsang sem ólst upp í SOS barnaþorpi á Indlandi og heimsótti fyrrvera...
Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum
Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Íslensk börn ...