Fréttayfirlit 12. janúar 2021

Aukið ofbeldi gegn börnum og fátækt eykst á ný

Aukið ofbeldi gegn börnum og fátækt eykst á ný

Kórónuveirufaraldurinn hefur komið illa niður á skjólstæðingum okkar í fjölskyldueflingu SOS í Eþíópíu sem SOS á Íslandi fjármagnar. Frá því verkefnið okkar á Tulumoye svæðinu í Eþíópíu hófst í janúar 2018 höfum við reglulega geta fært SOS-fjölskylduvinum á Íslandi fréttir af ánægjulegum árangri verkefnisins. Hver barnafjölskyldan á fætur annarri hafði risið upp úr sárafátækt og var farin að standa á eigin fótum og skólasókn barna var komin upp í 95%.

En eftir að heimsfaraldurinn skall á hefur því miður orðið mikil afturför hjá þessum fjölskyldum enda sóttvarnaraðgerðir yfirvalda verulega íþyngjandi og skólahald hefur legið niðri stærstan hluta ársins. Við fengum verkefnastjóra á staðnum til að ræða við þrjár húsmæður sem eru meðal skjólstæðinga okkar og spyrja þær hvernig faraldurinn hefur haft áhrif á fjölskyldur þeirra.

Börn fórnarlömb nauðgana

Nagardu er 33 ára tveggja barna móðir. Hún aflaði tekna með ýmsum hætti, m.a. með því að rýja kindur og selja ullina. En eftir að faraldurinn skall á hefur flutningskostnaður tvöfaldast. „Þetta hefur minnkað hvatann hjá mér til að halda áfram enda er lítið upp úr þessu að hafa núna,” segir Nagardu sem í kjölfarið sneri sér að einni algengustu tekjöflun Eþíópíubúa, að baka injera pönnukökur og selja. „Það dugir þó skammt og ég á í vandræðum með að framfleyta fjölskyldunni.”

Skólar hafa verið lokaðir stóran hluta ársins og á meðan er algengt að börnin séu ein og eftirlitslaus heima meðan foreldrarnir strita við að afla tekna, fjarri heimilinu. Nagardu segist aðspurð vita af misnotkun á börnum í hverfinu hennar. „Þetta er ofbeldi af ýmsu tagi sem ég bæði orðið vitni að og heyrt af. Þar á meðal nauðganir. Ég held að aukið ofbeldi hérna gegn börnum megi skrifa á skort á vitundarvakningu meðal almennings.”

Hefur misst 75% tekna sinna

Hanna er 29 ára einstæð tveggja barna móðir. Hún er einn rekstraraðila smásjoppu og salarnisaðstöðu á umferðarmiðstöð bæjarins Eteya og var einmitt í viðtali í síðasta tölublaði. Reksturinn var settur á laggirnar sem liður í Fjölskyldueflingunni. Eftir að Covid-19 brast á hafa tekjur hennar dregist saman um 75%.

„Fólk er ekki eins mikið á ferðinni, það er hrætt við að nota þjónustuna okkar af ótta við að smitast og rútustöðinni hefur verið skipt upp í tvö sóttvarnarsvæði. Áður þénaði ég 400 Birr á dag (1600 ÍSK) en núna eru þetta 100 Birr á dag. Ég á í vandræðum með að framfleyta börnunum mínum.”

Börnin berskjölduð ein heima

Ofbeldi gegn konum og börnum hefur stóraukist eftir að faraldurinn braust út og Hanna óttast að geta ekki varið dætur sínar fyrir ofbeldismönnum.

„Síðan skólum var lokað eru dætur mínar heima og þeim kemur ekki vel saman þar. Þær rífast mikið. Ég hef miklar áhyggjur af eldri dóttur minni. Hún er á unglingsaldri og ég óttast sífellt að henni verði rænt því ég er mikið að heiman vegna vinnunnar. Á meðan eru þær berskjaldaðar.”

Börnunum líður illa

Nagashu er þrítug fjögurra barna móðir sem aflaði tekna með því að selja grænmeti á mörkuðum í nágrannabæjum. „Eftir að faraldurinn skall á hefur ferðakostnaður hækkað svo að það borgar sig ekki lengur fyrir mig að fara í söluferðir með grænmetið. Þar af leiðandi hafa tekjur mínar dregist verulega saman,” segir Nagashu sem er augljóslega mikið niðri fyrir og á erfitt með að ræða þessi mál við okkur.

Hún svaraði ekki spurningu okkar um hvort hún hefði vitneskju um aukið heimilisofbeldi og við virðum það Hún hefur sömu sögu að segja af sínum börnum og annarra vegna lokunar skólanna. „Börnunum er farið að líða verulega illa því það er ekkert fyrir þau að gera.”

Frásagnir kvennanna gefa okkur nokkuð skýra mynd af ástandinu og áhrifunum sem faraldurinn hefur á fátækar barnafjölskyldur á svæðinu. Það er gott til þess að hugsa að SOS hefur á að skipa öflugum hópi starfsfólks á staðnum til að hjálpa þessum fjölskyldum eftir fremsta megni. Það sanna úttektir okkar á verkefninu.

SOS-fjölskylduvinir eru þeir styrktaraðilar SOS sem hjálpa SOS Barnaþorpunum á Íslandi að fjármagna þetta verkefni í Eþíópíu. Á sérstöku fjölskylduvinasvæði hér á heimasíðunni má nálgast umfjöllun um gang verkefnisins og viðtöl við skjólstæðinga þar.

Upplýsingasvæði fyrir SOS-fjölskylduvini
SOS fjölskylduvinur

SOS fjölskylduvinur

SOS fjölskylduvinur

SOS-fjölskylduvinir styrkja fjölskyldueflingu SOS. Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.

Mánaðarlegt framlag
1.500 kr 2.500 kr 5.000 kr 7.500 kr