Faldi óléttuna til að geta verið í skóla
Besta leiðin til að koma í veg fyrir aðskilnað barna við foreldra þeirra er að hjálpa þeim og foreldrunum áður en til aðskilnaðar kemur. Þess vegna settu SOS Barnaþorpin á laggirnar Fjölskyldueflingu.
*Babette er 18 ára stúlka í Sambíu sem missti foreldra sína þegar hún var lítil og eftir að amma hennar dó fyrir fjórum árum var hún ein á báti, 14 ára. Þegar hún varð svo barnshafandi 17 ára hrundi heimur hennar. Babette ákvað að leyna óléttunni því hún óttaðist að þurfa að hætta í skólanum.
„Ég var svo örvæntingarfull. Hvernig átti ég að geta verið áfram í skóla og hugsað um ungabarn á sama tíma? Ég vissi ekkert hvernig á að hugsa um barn,“ segir Babette með þriggja mánaða gamlan son sinn Noah. Hún veit að menntun er hennar eina leið út úr fátæktinni.
Fjölskylduefling SOS kom til bjargar
Babette ákvað að bíta á jaxlinn þegar Fjölskylduefling SOS Barnaþorpanna tók þessa ungu fjölskyldu undir sinn verndarvæng. Hún fann til ábyrgðar gagnvart frænku sinni og tveggja ára syni hennar sem höfðu flutt inn á heimilið eftir að amman dó. Frænkan passar *Noah á meðan á meðan Babette fer í skólann.
Húsið var í niðurníðslu en með tilkomu Fjölskyldueflingarinnar hefur SOS nú bætt aðstæður fjölskuldunnar til muna. Sett hafa verið upp sólarorkuljós inni á heimilinu svo Babette geti gert heimalærdóm sinn á kvöldin. Þar að auki hefur verið sett læsanleg hurð á húsið, gler í gluggana og þak á húsið sem áður lak í rigningarveðri.
Nám í stað ótta og óvissu
„Ég ligg oft andvaka á næturnar og hugsa um hvernig lífið mitt verður. Ég veit að ég verð að leggja hart að mér í náminu svo það verði eitthvað úr mér í framtíðinni. Þá get ég veitt syni mínum gott líf í stað þess að lifa í ótta og óvissu,“ segir Babette sem ætlar að verða blaðamaður.
Saga Babette gefur góða innsýn í það hvernig Fjölskylduefling SOS Barnaþorpanna hjálpar sárafátækum barnafjölskyldum. Samtökin eru með 574 slík verkefni í gangi um allan heim sem eru sérsniðin að aðstæðum á hverjum stað fyrir sig. SOS á Íslandi fjármagnar þrjú þessara verkefna, í Eþíópíu, Perú og Filippseyjum.
*Raunverulegu nafni breytt
Yfir hálf milljón skjólstæðinga
Skjólstæðingar Fjölskyldueflingar SOS Barnaþorpanna á heimsvísu eru alls 505,800 talsins í yfir 98 þúsund fjölskyldum.
Hægt er að verða SOS-fjölskylduvinur með því að skrá sig fyrir mánaðarlegu framlagi að eigin vali. Fjölskylduvinir fá reglulega fréttir af þeim fjölskyldum sem SOS á Íslandi hjálpa.
Fjölskylduefling SOS nær til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og uppfyllir markmið númer 1, 2, 3, 4, 5 og 6. SOS Barnaþorpin uppfylla heimsmarkmið númer 1, 4, 8, 10 og 16 að fullu og markmið númer 3,5 og 17 að hluta.
Nýlegar fréttir
Af hverju stappa börn niður fótunum?
Alþjóðlegur dagur barnsins er í dag á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. SOS Barnaþorpin ýttu í dag úr vör herferð með þeim tilgangi að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til...
Börnin í Líbanon heil á húfi
SOS Barnaþorpin í Líbanon hafa staðfest að öll börn og ungmenni á framfæri samtakanna í landinu eru heil á húfi. Stríðsástandið í landinu hefur þó áhrif á börnin sem áfram er hlúð vel að.