Fékk lyfjaseið hjá töfralækni og missti annan fótinn
Ahimed Bobi er 47 ára tveggja barna heimilisfaðir í fjölskyldueflingu SOS í Eþíópíu. Hann hefur ekki alltaf verið til staðar fyrir börnin sín og eiginkonu. Hann glímdi við þunglyndi vegna fötlunar, ánetjaðist fíkniefnum og átti það til að láta sig hverfa í margar vikur. Í viðtali við fréttablað SOS á Íslandi segir Ahimed frá því þegar hann missti annan fótinn á barnsaldri eftir að töfralæknir sprautaði hann með eitruðum lyfjaseið. Myndband með viðtalinu við Ahimed má sjá hér fyrir neðan.
Fékk sýkingu eftir lyfjaseið töfralæknis
Ahimed, eiginkona hans Fatuma, 28 ára, og tvö börn, búa í Teromoye, strjálbýlu bæjarfélagi þar sem SOS á Íslandi starfrækir fjölskyldueflingu í Eþíópíu. Fjölskyldan var við það að leysast upp þegar SOS kom til sögunnar. „Við lifðum í sárafátækt, áttum ekki fyrir nauðþurftum og gátum ekki sent börnin í skóla. Þess vegna sótti ég um að komast í fjölskyldueflingu SOS,” sagði Ahimed sem áður átti til að skilja alla ábyrgð eftir á herðum eiginkonu sinnar.
Ahimed lenti í afdrifaríkri lífsreynslu þegar hann var mjög ungur að árum. „Ég veit ekki nákvæmlega hvernig ég missti fótinn. Ég veit bara að ég veiktist og töfralæknir blandaði eitraðan lyfjaseið sem hann sprautaði í mig. Þetta var auðvitað ekki alvöru læknir og alls ekki viðurkennt lyf sem ég fékk. Þetta olli sýkingu í fætinum og að lokum þurfti að skera hann af.”
Í stað þess að vorkenna sjálfum mér og gráta fyrir framan börnin, þá valdi ég að gera það annarsstaðar. Ahimed
Taldi sig gagnslausan vegna fötlunar
Eftir að Ahimed og Fatuma stofnuðu fjölskyldu jókst ábyrgðin á heimilisföðurinn sem þoldi álagið illa. Hann átti erfitt með að sætta sig við fötlunina og hafði litla trú á sjálfum sér. „Ég var fullur sjálfsvorkunar vegna fötlunar minnar. Mér fannst ég ekkert hafa fram að færa fyrir fjölskylduna, verandi einfættur. Ég átti það til að flýja og skilja fjölskylduna eftir."
Lét sig hverfa í dópið
Fatuma, eiginkona hans, var þá ein eftir með börnin auk þess sem hún vann til að sjá fyrir þeim. Hún tók að sér hin ýmsu störf eins og að safna eldiviði til að selja á meðan Ahimed var víðs fjarri í vímu. „Ég átti það til að láta mig hverfa, oft lengur einn í einn mánuð. Börnin mín sáu mig ekkert á þeim tíma. Ég dvaldi þá í bæ hérna skammt hjá og varð háður fíkniefninu khat. Ég hugsaði ekki skýrt og skildi alla ábyrgð eftir á konunni minni. Mér leið illa að vera hérna því mér fannst ég ekki geta gert neitt. Þannig að í stað þess að vorkenna sjálfum mér og gráta fyrir framan börnin, þá valdi ég að gera það annarsstaðar.”
Þurfti bara aðstoð
Það er ljóst að alger hugarfarsbreyting hefur orðið hjá Ahimed. Hann þurfti eftir allt saman bara örlitla aðstoð við að koma sér á réttan kjöl. „Núna þegar SOS hefur hjálpað okkur að verða sjálfbær með nautgripum og landrækt þá gengur allt betur og mér líður mikið betur. Við höfum náð að eignast dálítinn sjóð og við getum séð fyrir okkur. Ég er hættur að nota fíkniefni og hér er mitt hlutverk. Hér er nóg að gera og hér vil ég gera. Ég er betri maður í dag.”
Viðtal og myndir: Hans St. Bjarnason
Fjölskylduefling SOS í Eþíópíu er styrkt af utanríkisráðuneytinu og SOS-fjölskylduvinum.
Nýlegar fréttir
SOS blaðið 2024 komið út
SOS-blað ársins er komið út og er það aðgengilegt öllum rafrænt hér á vefsíðu okkar. Í blaðinu er viðtal við hina tíbetsku Sonam Gangsang sem ólst upp í SOS barnaþorpi á Indlandi og heimsótti fyrrvera...
Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum
Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Íslensk börn ...