Fjölskyldueflingu hætt á Filippseyjum
Kæri fjölskylduvinur.
Vorið 2019 hófu SOS Barnaþorpin á Íslandi nýtt fjölskyldueflingarverkefni á Filippseyjum til þriggja ára með stuðningi íslenska utanríkisráðuneytisins og SOS-fjölskylduvina á Íslandi. Hlutur ráðuneytisins af kostnaðinum var 80% en framlög íslenskra fjölskylduvina, eins og þín, brúaði bilið upp í heildarkostnað eða 20% hans.
Verkefnið fór mjög vel af stað og nutu nærri 2.000 börn í sárafátækum fjölskyldum góðs af verkefninu. Markmið þess var að þessar sárafátæku fjölskyldur fengju fræðslu, stuðning og þjálfun til að geta, að ákveðnum tíma liðnum, staðið á eigin fótum, haft tekjur og mætt þörfum barna sinna án utanaðkomandi aðstoðar.
Fyrr á þessu ári sáum við ástæðu til að óska skýringa á ákveðnum stjórnunarháttum stjórnar SOS á Filippseyjum sem hún taldi sig ekki geta orðið við. Beiðnin byggði að okkar mati á eðlilegum kröfum um gagnsæi í samstarfsverkefni eins og hér um ræðir. Í kjölfarið rifti stjórn SOS á Filippseyjum samstarfssamningi við SOS á Íslandi vegna þessa ákveðna verkefnis og lauk fjármögnun okkar á því þar með 30. september sl.
Að því sögðu viljum við taka skýrt fram að þessi meinti skortur á gagnsæi snýst ekki um meðferð fjármagns heldur vissa stjórnunarhætti. SOS Barnaþorpin á Íslandi leggja ríka áherslu á gagnsæi í öllum vinnubrögðum svo viðbrögð stjórnar SOS á Filippseyjum eru okkur því mikil vonbrigði. Við ætlum ekki að orðlengja útskýringar á þessu máli hér en hafir þú frekari spurningar munum við fúslega svara þér þeim og hvetjum við þig þá til að setja þig í samband við okkur.
Sem fyrr segir hafa nærri tvö þúsund börn fengið hjálp í gegnum verkefnið og hafa aðstæður þeirra og fjölskyldna þeirra batnað til muna á þessu eina og hálfa ári síðan verkefnið hófst. SOS Barnaþorpin á Filippseyjum munu reyna eftir fremsta megni að halda verkefninu áfram, þó ætla megi að draga muni úr stuðningi við fjölskyldurnar. Það er þó von okkar að sá góði grunnur sem við höfum lagt með innleiðslu verkefnisins á Filippseyjum muni auðvelda öðrum hugsanlegum fjármögnunaraðilum með að taka upp þráðinn þar sem frá okkur var horfið.
SOS Barnaþorpin á Íslandi vinna nú að því að hefja samstarf við annað land og hefja þar nýtt Fjölskyldueflingarverkefni sem íslenskir fjölskylduvinir SOS munu þá fjármagna auk þess sem sótt verður um styrk frá utanríkisráðuneytinu. Við upplýsum þig og aðra fjölskylduvini nánar um það þegar niðurstaða liggur fyrir. Eftir sem áður fjármagna íslenskir fjölskylduvinir mjög vel útfært fjölskyldueflingarverkefni í Eþíópíu.
Þakka þér innilega fyrir stuðninginn. Hann skiptir svo sannarlega miklu máli, nú sem aldrei fyrr.
SOS fjölskylduvinur
SOS fjölskylduvinur
SOS-fjölskylduvinir styrkja fjölskyldueflingu SOS. Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.