Ný fjölskylduefling í Eþíópíu
Eins og við sögðum frá í janúar sl. lauk fimm ára verkefni okkar í fjölskyldueflingu í Eþíópíu um síðustu áramót með þeim góða árangri að 360 barnafjölskyldur losnuðu úr viðjum sárafátæktar og geta nú staðið á eigin fótum. Um áramótin sl. hófst svo undirbúningur að nýrri fjölskyldueflingu í Eþíópíu og er það verkefni komið vel á veg.
Nýja verkefnissvæðið er í Arba Minch í sunnanverðri Eþíópíu og er til þriggja ára. Þar munum við styðja við 637 börn og 224 foreldra þeirra eða forrráðafólk sem er að nær öllu leyti einstæðar mæður. Fjölskyldueflingin þar mun líka hafa óbein áhrif á 11 þúsund íbúa á svæðinu.
Af mörgu að taka
Snemma árs fór fram val á starfsfólki í verkefnisteymið sem og val á þeim fjölskyldum sem taka þátt. Markmið verkefnisins er að þessar fjölskyldur verði lausar úr viðjum sárafátæktar innan þriggja ára. Á fyrstu stigum verkefnisins sækja foreldrar ýmis námskeið eins og í barnauppeldi og barnavernd sem hafa strax leitt af sér bersýnilegan árangur.
Ofbeldi gegn börnum er einn af þeim þáttum sem tekið er á í verkefninu og í því samhengi eru starfræktar barnaverndarnefndir. Námskeið eru haldin fyrir börn og ungmenni þar sem þau fá fræðslu um réttindi sín og hljóta þjálfun í að bregðast við ef þau lenda í hvers kyns ofbeldi eða verða vitni af því. Nú þegar hafa nokkrir hópar barna og ungmenna lokið námskeiðum af því tagi.
Fátækt fólk getur líka sparað
Fjölskylduefling SOS hefur gert fólki í sárafátækt kleift að spara pening og leggja til hliðar. Samstarf er komið á við lánastofnanir þar sem fjölskyldurnar geta tekið lán á lágum vöxtum til að koma á fót atvinnurekstri eða annarri tekjuöflun fyrir heimilið. Fjölskyldur hafa samhliða því hlotið þjálfun í gerð fjárhagsáætlana og nú þegar eru 80 heimili komin með slíkar áætlanir.
Við þekkjum það hér á Íslandi að geta tryggt okkur fyrir alls kyns áföllum. Á verkefnasvæði okkar í Arba Minch tryggjum við fjölskyldurnar í samstarfi við nokkurs konar íbúasamtök. Þau sjá til þess að verst stöddu foreldrana skorti ekki brýnustu nauðsynjar og tryggja með beinum fjárstuðningi að grunnþörfum þeirra sé mætt. Íbúasamtökin getum við litið á sem nokkurs konar öryggisnet fyrir fjölskyldurnar.
16 fjölskyldur orðnar sjálfbærar í Malaví
Fjölskyldueflingin okkar í Malaví er nú á þriðja ári af fjórum. Fyrstu sextán fjölskyldurnar eru nú farnar að standa á eigin fótum og nálgast útskrift. Börnin geta sótt skóla og er það stór þáttur í því markmiði að rjúfa vítahring sárafátæktar milli kynslóða. Áætlað er að 160 fjölskyldur hafi útskrifast í lok þessa árs. Alls eru 365 fjölskyldur virkir þátttakendur í verkefninu og í þeim eru 1378 börn. Verkefnalok eru áætluð í lok árs 2025.
Sjá einnig:
Rauf vítahring fátæktar með íslenskum stuðningi
Rúrik heimsótti fjölskyldueflingu í Malaví
Saumavél bjargaði fjölskyldunni
Rúanda
Þriðja fjölskyldueflingin okkar Íslendinga er í Rúanda og hófst hún í byrjun árs 2022. Þátttakendur í verkefninu okkar þar eru 300 fjölskyldur með 1400 börnum og ungmennum. Enn er engin fjölskylda útskrifuð en um 200 foreldrar hafa útskrifast úr verknámi og ýmist stofnað til atvinnureksturs eða fengið vinnu. Verkefnalok eru áætluð í desember 2025. Verkefnið hefur jákvæð áhrif á sex þúsund manns í nærsamfélaginu.
Skömmuðust sín vegna fátæktar-(Saga hjóna í fjölskyldueflingu SOS í Rúanda)
Framundan er svo fjórða fjölskyldueflingin okkar sem hefst í Úganda á næsta ári og munum við greina nánar frá henni síðar.
SOS fjölskylduvinur
SOS fjölskylduvinur
SOS-fjölskylduvinir styrkja fjölskyldueflingu SOS. Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.