Þénar mest 400 krónur á dag
Sadije er móðir þriggja barna í smábænum Iteya í Eþíópíu og býr hún ásamt þeim og eiginmanni sínum í um það bil tíu fermetra húsi. Fjölskyldan lifir við sárafátækt og er ein af þeim 566 fjölskyldum sem njóta aðstoðar SOS Barnaþorpanna á Íslandi í gegnum Fjölskyldueflingu SOS.
Áttum ekki fyrir mat
„Við áttum í rauninni ekkert til að lifa á áður en hjálpin barst frá ykkur. Það var engin fyrirvinna og við áttum ekki fyrir mat. Svo útveguðuð þið mér korn sem ég get selt á markaðnum og núna er ég að fá tekjur svo ég get gefið börnunum að borða,“ sagði Sadije í samtali við Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúa SOS sem heimsótti Iteya á dögunum.
400 krónur á dag
Sadije þénar sem nemur 400 krónum á „góðum degi“ af sölu á korni. Í gegnum Fjölskyldueflinguna gat Sadije tekið lán á lágum vöxtum sem gerði henni kleift að kaupa meira korn til að selja á markaðnum. Nú þegar tekjur eru farnar að koma til heimilisins getur Sadije ekki aðeins brauðfætt fjölskylduna heldur líka sent börnin í skólann, sem hún hafði áður ekki efni á og hún sér fram á bjartari framtíð.
„Við sjáum von núna. Að hafa vinnu og innkomu lætur hlutina ganga upp. Við erum ykkur svo þakklát. Vonandi haldið þið áfram að hjálpa okkur.“
Barnafjölskyldur í sárafátækt
Fjölskylduefling SOS felst í að styðja barnafjölskyldur í sárafátækt til sjálfbærni, m.a. með bættri heilbrigðisþjónustu, stuðningi við menntun, uppeldisþjálfun, betra aðgengi að vatni, fjármálaráðgjöf og aðgengi að lánum á lágum vöxtum svo dæmi séu tekin. Lánin eru veitt fjölskyldunum til að efla eigin atvinnurekstur svo sem til kaupa á búnaði og hráefni til framleiðslu á matvöru til sölu.
Verkefni okkar í Eþíópíu hófst 1. janúar 2018 og stendur yfir í þrjú ár. Umræddar fjöskyldur eru í smábænum Iteya og þorpinu Tero Moye sem er í 20 km fjarlægð. Verkefnið er kennt við eldfjallið Tullumoye sem þýðir „Fjallsgígur“ á íslensku og er í nágrenni Tero Moye.
Nýlegar fréttir
Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum
Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Íslensk börn ...
Af hverju stappa börn niður fótunum?
Alþjóðlegur dagur barnsins er í dag á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. SOS Barnaþorpin ýttu í dag úr vör herferð með þeim tilgangi að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til...