Sólblómaleikskólar SOS Barnaþorpanna er samstarfsverkefni milli SOS Barnaþorpanna og leikskóla á landinu. Um er að ræða verkefni þar sem leikskólabörnin fá tækifæri til að fræðast um börn í öðrum löndum, fá að kynnast menningu þeirra og aðstæðum ásamt því að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað.
Öll börn eiga sömu réttindi, sama hvar þau búa. Börn um allan heim fæðast með sömu getu og hæfileika til að blómstra en stundum hefur umhverfið sem þau alast upp í áhrif á tækifæri þeirra. SOS Barnaþorpin ásamt Sólblómaleikskólum landsins tryggja að enn fleiri börn heimsins fái tækifæri til að blómstra.
Hugmyndin að verkefninu kemur frá SOS Barnaþorpunum í Noregi og varð sólblómið valið sem tákn verkefnisins, enda eru sólblóm og börn ekki svo ólík, þau þarfnast bæði umhyggju og næringar til að vaxa og dafna.