Sjálfbærnistefna SOS
Sjálfbærnistefna SOS
Inngangur
SOS Barnaþorpin á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökum SOS Barnaþorpanna, SOS Children‘s Villages International, sem hafa höfuðstöðvar í Austurríki. Tilgangur samtakanna er að vinna að félagslegri framþróun og starfa þau eingöngu í þágu almennings og þá einkum að hagsmunum þeirra barna og ungmenna sem eiga á hættu að verða aðskilin frá foreldrum sínum eða eru það nú þegar. Þá styðja samtökin einnig við brothættar fjölskyldur og þá sem þarfnast hjálpar vegna náttúruhamfara eða stríðsreksturs.
Markmið
Markmiðið með stefnu þessari er að formfesta og lýsa yfir þeim eindregna vilja stjórnar og stjórnenda samtakanna að viðhafa góða og ábyrga stjórnarhætti, lágmarka neikvæð áhrif starfseminnar á umhverfið og hlúa að velferð allra helstu hagaðila, s.s. skjólstæðinga og starfsfólks.
SOS Barnþorpin vinna að framgangi átta Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á heimsvísu með beinum hætti (1,3,4,5,8,10,16 og 17). Þar af eru fimm Heimsmarkmið miðlæg í starfi samtakanna, þ.e. markmið 1 um enga fátækt, 4 um menntun fyrir alla, 8 um góða atvinnu, 10 um aukinn jöfnuð og 16 um frið og réttlæti.
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa allt frá stofnun samtakanna 1989 unnið að bættri velferð þeirra barna sem hvað höllustum fæti standa í þessum heimi, þ.e. þeirra sem ekki njóta umönnunar foreldra sinna. Kröfur nútímans til samtakanna eru þó meiri en svo að eingöngu verði hugað að þeim þætti. Samtökin vilja gera betur og sýna ábyrgð á fleiri sviðum, t.d. hvað varðar stjórnar- og umhverfisþætti. Er stefna þessi þáttur í þeirri viðleitni. Hún tekur á þremur yfirþáttum; stjórnarháttum, umhverfi og félagslegum þáttum.
1. Stjórnarhættir
Vel útfærðir stjórnarhættir og skýrar reglur eru ekki markmiðið í sjálfu sér, heldur nauðsynleg tæki til að ná settu marki á réttan hátt.
• Siðferði og gagnsæi: SOS Barnaþorpin vilja halda styrktaraðilum og almenningi öllum vel upplýstum um starfsemina, þ.m.t. um öflun og nýtingu fjár og skal það m.a. gert á heimasíðu samtakanna og með þeim öðrum leiðum sem telja henta hverju sinni. Öllu starfsfólki ber ekki eingöngu að virða lög landsins heldur einnig að sinna störfum sínum út frá siðareglum samtakanna sem ávallt skulu aðgengilegar á heimasíðu samtakanna: Stefnur og reglur. Samtökin eru á lista yfirvalda yfir félög til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri og sem slík lúta þau lögum nr. 119/2019.
• Stjórnskipulag: Samtökin eru aðili að alþjóðasamtökum og lúta samþykktum þeirra auk þess að vera með sínar eigin samþykktir sem ávallt skulu vera aðgengilegar á heimasíðu samtakanna (sos.is/um-sos/stefnur-og-reglur). Stjórn samtakanna er kosin á aðalfundi og skal starfa eftir starfsreglum stjórnar sem endurskoðaðar eru eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Virkir félagar geta sótt aðalfund og nýta þar félagsleg réttindi sín, svo sem að bjóða sig fram til og kjósa stjórn og að breyta samþykktum.
• Áhættustýring: Samtökin skulu vinna eftir virkri áhættustýringu út frá áhættustefnu sem stjórn samþykkir og endurskoðar eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Sérstaklega skal hugað að því að draga úr fjárhagslegri áhættu og stuðla að fjárhagslegum stöðugleika.
2. Umhverfi
SOS Barnaþorpin vilja vera ábyrg þegar kemur að umhverfismálum. Á þetta ekki eingöngu við um starfsemi samtakanna á Íslandi heldur einnig erlendis þegar því verður við komið.
• Loftslagsmál: Við val á verkefnum erlendis og hönnun þeirra vinnum við m.a. útfrá stefnu íslenskra stjórnvalda í þróunarverkefnum og hvetjum samstarfsaðila okkar á vettvangi til að taka tillit til loftslagsmála og annarra umhverfisþátta.
• Losun gróðurhúsalofttegunda: Samtökin vilja eftir fremsta megni leggja áherslu á vistvæn innkaup á vörum og þjónustu. Á skrifstofu samtakanna skal sorp flokkað í plast, pappír og almennt sorp, og svo enn frekar þegar sorphirða leyfir. Starfsfólk er hvatt til vistvænna samgangna og skulu flugferðir vegna vinnu takmarkaðar og valdar útfrá mikilvægisþáttum. Til framtíðar litið viljum við vinna enn markvissara að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og gera það í skrefum, m.a. með reglulegri endurskoðun þessarar stefnu.
3. Félagslegir þættir
SOS Barnaþorpin voru stofnuð til að vinna að auknu réttlæti í samfélaginu og hefur því vinna við félagslega þætti verið kjarninn í starfseminni frá upphafi - og er enn.
• Samskipti við nærsamfélagið og áhrif verkefna: Við leggjum áherslu á að samstarfsaðilar okkar á vettvangi útfæri þróunar- og mannúðarverkefni samkvæmt stöðlum alþjóðasamtakanna til að hámarka jákvæð áhrif á nærsamfélagið og að allir sem koma að verkefnum vinni eftir siðareglum samtakanna. Við viljum að verkefnin bæti aðstæður og velferð skjólstæðinga okkar umtalsvert, einkum barna í viðkvæmum aðstæðum þannig að þau upplifi aukinn jöfnuð, velferð og réttlæti. Uppbygging færni og getu starfsfólks er áhersluatriði í öllum verkefnum.
• Mannréttindi: Allt starfsfólk samtakanna, hvar sem er í heiminum, skal vinna í anda alþjóðlegra reglna og stefna er varða mannréttindi.
• Heilsa, öryggi og vellíðan starfsfólks og sjálfboðaliða: Stjórnendur eiga að tryggja að starfsfólki líði vel í vinnunni og að hún hafi ekki neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu þess. Samtökin eru með virka stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynbundinnar áreitni, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað.
Gagnsæi
Stjórn SOS Barnaþorpanna skal árlega yfirfara þessa stefnu og skal hún birt á vefsíðu samtakanna.
Samþykkt á fundi stjórnar 28. ágúst 2024