Fréttayfirlit 19. ágúst 2021

Neyðarsöfnun fyrir Haítí

Neyðarsöfnun fyrir Haítí

SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa ákveðið að senda fjármagn til SOS á Haítí sem stendur í neyðaraðgerðum vegna afleiðinga jarðskjálftans sem reið þar yfir sl. laugardag, 14. ágúst. Af því tilefni hefur SOS á Íslandi hrundið af stað neyðarsöfnun til að gefa almenningi hér á landi kost á að leggja sín lóð á vogarskálarnar.

Taktu þátt í neyðarsöfnun SOS hér!

Börn einsömul ráfandi um

Neyðarástand ríkir á Haítí eftir jarðskjálftann sem hafði þær afleiðingar að á þriðja þúsund manns hafa fundist látin. „Mörg börn eru á ráfi um hamfarasvæðið, börn sem hafa orðið viðskila við foreldra sína eða vita ekki um afdrif þeirra. Þessi börn eru berskjölduð fyrir hættum af ýmsu tagi og SOS Barnaþorpin eru til staðar fyrir þau," segir Faimy Carmelle Loiseau, framkvæmdastýra SOS Barnaþorpanna á Haítí. Hún bendir jafnframt á að ein af afleiðingum skjálftans sé að fangar hafi sloppið úr fangelsum og auki það enn frekar á ótta almennings að þeir gangi um lausir. Þess utan ógna glæpagengi einnig öryggi fólks.

Áætlað er að jarðskjálftinn hafi haft áhrif á 1,2 milljónir, þar af 540 þúsund börn. Hátt á þriðja þúsund manns létust í skjálftanum, margra er enn saknað, um 53 þúsund hús eyðilögðust og 77 þúsund hús skemmdust. SOS Barnaþorpin eru á staðnum og taka þátt í björgunaraðgerðum og uppbyggingu sem ljóst er að munu halda áfram næstu vikur, mánuði og jafnvel ár.

Þrjú SOS barnaþorp eru á Hítí og er eitt þeirra, Les Cayes, skammt frá upptökum skjálftans. „Allir eru heilir á húfi í barnaþorpunum, börnin sem þar búa og starfsfólk. Miklar skemmdir urðu hins vegar á vatnstanki í SOS barnaþorpinu í Les Cayes." Yfir 120 Íslendingar eru SOS foreldrar barna í hinum tveimur barnaþorpunum á Haítí og hefur þeim verið tilkynnt að börnin í barnaþorpunum séu óhult.

Aðgerðir SOS á Haítí

Í forgangi er núna að sjá fólki fyrir vatni, mat og húsaskjóli. SOS hefur opnað barnvæn svæði þar sem börnin fá grunnþörfum sínum mætt, þau haft eitthvað fyrir stafni og fengið sálfræði- og læknisaðstoð. Langt uppbyggingarstarf er framundan enda eru minnst 30.000 manns heimilislaus af völdum skjálftans. SOS hefur m.a. sett saman teymi fagfólks sem er nú að meta þörfina á aðstoð í Les Cayes barnaþorpinu og nágrenni þess. Hópur sálfræðinga á vegum SOS veitir áfallahjálp.

VERTU BARNAÞORPSVINUR SOS Á HAÍTÍ

Framundan er áframhaldandi starf við að tryggja öryggi barnanna og starfsfólksins í barnaþorpunum okkar auk annarra barna sem standa eftir umkomulaus eftir að hafa misst foreldra sína eftir skjálftann. Viðbúið er að álag aukist mikið á SOS barnaþorpin okkar á Haítí á næstunni og það kallar á fleiri SOS barnaþorpsvini sem með mánaðarlegu framlagi taka þátt í rekstri barnaþorpanna.

VERTU SOS BARNAÞORPSVINUR - SKRÁÐU ÞIG HÉR!

Skjólstæðingar SOS á Haítí um 11.700

Nú þegar eru skjólstæðingar SOS Barnaþorpanna á Haítí um 11.700 talsins en búast má við að þeim fjölgi verulega í hjálparaðgerðunum sem nú eru yfirstandandi. Um 1300 þeirra eru börn og ungmenni í barnaþorpum en aðrir eru ósjálfbjarga barnafjölskyldur í fjölskyldueflingu.

Nýlegar fréttir

Ingibjörg og Anna Bjarney kjörnar í stjórn SOS
15. maí 2024 Almennar fréttir

Ingibjörg og Anna Bjarney kjörnar í stjórn SOS

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna á Íslandi var haldinn mánudaginn 13. maí og urðu þá breytingar á stjórn samtakanna. Ingibjörg E. Garðarsdóttir og Anna Bjarney Sigurðardóttir voru kjörnar í stjórnina til ...

SOS eru einu samtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn
14. maí 2024 Almennar fréttir

SOS eru einu samtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn

Ástandið á Gaza er sérstaklega viðkvæmt núna og SOS Barnaþorpin eru einu hjálparsamtökin eftir á svæðinu sem taka að sér fylgdarlaus börn. Þessi frétt er uppfærð reglulega með nýjustu fréttum frá SOS ...