Fréttayfirlit 30. mars 2016

Systkini flutt frá Madaya

SOS Barnaþorpin í Sýrlandi, í samstarfi við sýrlenska Rauða krossinn, hafa undanfarna tvo mánuði aðstoðað íbúa í Madaya sem hafa verið innikróaðir í meira en hálft ár vegna umsáturs stjórnarhersins. Erfitt hefur verið að fá aðgang að þorpinu en SOS Barnaþorpin ásamt fleiri samtökum fengu loks að fara með hjálpargögn inn í þorpið í janúar. Eftir miklar viðræður fengu svo SOS Barnaþorpin og sýrlenski Rauði krossinn leyfi til að sækja verst settu börnin úr þorpinu sem og í tveimur öðrum þorpum.

Á föstudaginn síðasta voru tvö börn ásamt móður sinni sótt til Madaya en um er að ræða fimm ára gamla stúlku og átján mánaða dreng. Stúlkan slasaðist alvarlega þegar hún varð fyrir skotárás. Hún dvaldi á gjörgæslu í Damaskus yfir helgina en er nú á batavegi. Drengurinn dvelur hjá SOS Barnaþorpunum í Damaskus en öll fjölskyldan mun fá aðsetur hjá samtökunum.

Stúlkan var á leið til skóla þegar hún varð fyrir byssuskoti. Hún var flutt með hraði á sjúkrahúsið í Madaya. Hún þurfti að gangast undir bráðaaðgerð en enginn skurðlæknir var á staðnum og því var hringt til Damaskus. „Fyrst ætlaði skurðlæknir í Damaskus að leiðbeina lækninum í Madaya í gegnum síma en rétt áður en aðgerðin hófst kom annað símtal þar sem honum var fyrirskipað að bíða. Þetta voru lengstu tíu mínútur lífs míns,“ segir móðir stúlkunnar.

Stúlkan hafði misst mikið blóð en öruggara þótti að senda sjúkrabíl frá sýrlenska Rauða krossinum og flytja hana á einkarekið sjúkrahús í Damaskus þar sem starfsfólk SOS Barnaþorpanna tók á móti fjölskyldunni ásamt skurðlæknum.  Stúlkan fór strax í aðgerð þar sem blæðingin var stoppuð og byssuskotin fjarlægð. Hún er nú á batavegi. 

„Ég trúi ekki mínum eigin augum þegar ég horfi á hana. Læknarnir segja að hún eigi eftir að hlaupa og leika sér innan skamms. Og við erum komin út úr Madaya! Það er eitthvað sem ég hef beðið eftir í marga mánuði. Nú fáum við athvarf og aðstoð frá SOS Barnaþorpunum fyrir utan Madaya, þangað förum við ekki aftur,“ segir konan sem er einstæð móðir. „Íbúar Madaya reyndu að finna mat og vatn en það varð erfiðara með hverjum degi.  Margir neyddust til að nota börnin sín til að smygla inn byrgðum þar sem þau eru lítil og fljót og komust frekar framhjá leyniskyttunum. Undir lokin vorum við farin að sjóða lauf með vatni og salti. Ég hélt að við myndum deyja þarna inni.“

Abeer Pamuk, starfmaður SOS Barnaþorpanna í Sýrlandi tók viðtalið. 

Nýlegar fréttir

Ingibjörg og Anna Bjarney kjörnar í stjórn SOS
15. maí 2024 Almennar fréttir

Ingibjörg og Anna Bjarney kjörnar í stjórn SOS

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna á Íslandi var haldinn mánudaginn 13. maí og urðu þá breytingar á stjórn samtakanna. Ingibjörg E. Garðarsdóttir og Anna Bjarney Sigurðardóttir voru kjörnar í stjórnina til ...

SOS eru einu samtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn
14. maí 2024 Almennar fréttir

SOS eru einu samtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn

Ástandið á Gaza er sérstaklega viðkvæmt núna og SOS Barnaþorpin eru einu hjálparsamtökin eftir á svæðinu sem taka að sér fylgdarlaus börn. Þessi frétt er uppfærð reglulega með nýjustu fréttum frá SOS ...