Fréttayfirlit 14. maí 2024

Vel á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu frá Íslandi

Vel á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu frá Íslandi

SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa sent tíu milljónir króna til SOS í Palestínu vegna neyðaraðgerða á Gaza. Rúmar átta milljónir króna hafa safnast í söfnun SOS á Íslandi sem hófst í febrúar og stendur enn yfir á sos.is. Þetta er í annað sinn sem SOS á Íslandi sendir tíu milljónir króna til neyðaraðgerða SOS í Palestínu eftir að átökin brutust út fyrir botni Miðjarðarhafs í október sl. Í fyrri söfnun söfnuðust tvær milljónir króna og er bilið brúað með greiðslum úr neyðarsjóði SOS á Íslandi.

600 þúsund krónur á mánuði frá Íslandi

Stuðningur Íslendinga við SOS Barnaþorpin í Palestínu eykst stöðugt og fleiri gerast nú mánaðarlegir styrktaraðilar, annars vegar fyrir neyðaraðgerðir samtakanna og hins vegar SOS-foreldrar fyrir börnin í barnaþorpunum tveimur í Palestínu. Þegar þetta er ritað nemur heildarupphæð þeirra famlaga rúmum 600 þúsund krónum á mánuði. Framlög Íslendinga til SOS Barnaþorpanna í Palestínu nálgast því þriðja tug milljóna króna síðan í október.

SOS Barnaþorpin eru einu hjálparsamtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn

SOS Barnaþorpin í Palestínu eru í viðbragðsstöðu og reiðubúin ef rýma þarf barnaþorpið í Rafah vegna árásar Ísraelshers á Gaza. Um 250 manns eru búsett í barnaþorpinu sem stendur, þar af 30 börn og aðrir skjólstæðingar samtakanna auk starfsfólks. Ástandið á Gaza er sérstaklega viðkvæmt núna og SOS Barnaþorpin eru einu hjálparsamtökin eftir á svæðinu sem taka að sér fylgdarlaus börn.

Tvö SOS barnaþorp eru í Palestínu, eitt í Rafah á Gaza og annað í Bethlehem á Vesturbakkanum. Tvö SOS barnaþorp eru í Palestínu, eitt í Rafah á Gaza og annað í Bethlehem á Vesturbakkanum.

68 börn flutt frá Gaza

Til stórtíðinda dró í mars þegar 68 börn og 11 starfsmenn SOS barnaþorpsins í Rafah voru flutt á brott frá Gaza og komið á öruggari stað til Bethlehem á Vesturbakkanum þar sem hitt SOS barnaþorpið er í Palestínu. Börnin sem flutt voru á brott frá Gaza eru áfram á framfæri barnaþorpsins í Rafah svo stuðningur SOS-foreldra heldur áfram að skipta miklu máli. Starfsemi er áfram í barnaþorpinu á Rafah.

Þessi brottflutningur barnanna hefði ekki verið mögulegur án opinna samskiptaleiða við viðeigandi yfirvöld. „Velferð berskjaldaðra barna hefur alltaf verið forgangsatriði SOS Barnaþorpanna, óháð stjórnmálum og með hlutleysi að leiðarljósi,“ segir m.a. um brottflutninginn í yfirlýsingu Alþjóðasamtaka SOS Barnaþorpanna.

Frá SOS barnaþorpinu í Rafah á Gaza, mars 2024. Frá SOS barnaþorpinu í Rafah á Gaza, mars 2024.
SOS foreldri barna á Gaza

SOS foreldri barna á Gaza

SOS foreldri barna á Gaza

Sem SOS foreldri barna á Gaza styrkir þú SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza í Palestínu með mánaðarlegu framlagi sem nemur 4.500 krónum. Framlagi þínu er varið í daglegan rekstur þorpsins svo tryggja megi öryggi og velferð þeirra barna sem þar búa og fer þeim nú fjölgandi.

Mánaðarlegt framlag
4.500 kr