21.772 Íslendingar fengu skattaafslátt vegna framlaga til SOS
Hátt í 96.000 einstaklingar studdu við almannaheillastarfsemi á Íslandi á síðasta ári og fengu endurgreiðslu frá Skattinum. 22% þeirra styrktu SOS Barnaþorpin eða alls 21.772 manns um rúmar 585 milljónir króna.
Lög um skattalega hvata til almannaheillastarfsemi tóku gildi á síðari hluta ársins 2021 og var árið 2022 því fyrsta heila árið sem þau giltu. Lögin fela í sér að einstaklingar geta dregið allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar vegna framlaga til almannaheillastarfsemi.
3.900 kr. verða 2.400 kr.
SOS-foreldrar sem greiða 3.900 krónur á mánuði lækka skattstofn sinn um 46.800 krónur á ári. Eftir því sem styrkupphæðin er hærri, því hærri verður endurgreiðslan. Upphæð skattafrádráttarins er mismunandi eftir skattþrepum viðkomandi styrktaraðila en algengt dæmi útreiknast þannig að SOS-foreldrar fá um 18.000 krónur endurgreiddar frá Skattinum. Eftir endurgreiðsluna má því námunda að mánaðarleg greiðsla SOS-foreldra nemi í raun um 2.400 krónum í stað 3.900 króna.
6,6 milljarðar til almannaheillafélaga
Alls drógu einstaklingar um 4,8 milljarða króna frá tekjuskattsstofni sínum í fyrra vegna slíkra framlaga en í heild námu framlög einstaklinga til almannaheillafélaga 6,6 milljörðum króna.
- Einstaklingur getur fengið skattfrádrátt (lækkun á tekjuskattsskattstofni) allt að 350 þúsund krónum á ári.
- Samanlagt geta hjón eða sambúðarfólk því lækkað skattstofninn sinn um 700 þúsund krónur.
- Sem styrktaraðili SOS Barnaþorpanna þarftu ekkert að aðhafast til að fá þessa endurgreiðslu því framlög þín eru forskráð á skattframtalið þitt.
Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins
Sjá einnig: Styrktaraðilar SOS fá endurgreitt frá Skattinum
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.