Þetta erum við að gera á Gaza
SOS Barnaþorpin í Palestínu hafa undanfarið aðstoðað fjölda fólks í neyð á Gaza. Við Íslendingar leggjum lóð okkar á vogarskálarnar, SOS á Íslandi sendir 10 milljónir króna og almenningur tekur þátt með framlögum í neyðarsöfnun okkar hér á sos.is.
SOS Barnaþorpin hafa verið til staðar fyrir munaðarlaus og yfirgefin börn í Palestínu frá 1968 og hafa því yfirgripsmikla þekkingu á aðstæðum. SOS barnaþorpið okkar í Rafah, á suðurhluta Gaza, tekur á móti fylgdarlausum börnum sem hafa misst umönnun foreldra vegna stríðsins.
Að auki veita SOS Barnaþorpin:
- Beina mannúðaraðstoð við fjölskyldur sem verst hafa orðið úti til að forðast frekari aðskilnað barna við fjölskyldur sínar
- Neyðaraðstoð fyrir fylgdarlaus börn, m.a. auðkenning barna, skráning og vistun í öruggu umhverfi
- Áfallahjálp, sérstaklega fyrir börn og umönnunarfólk okkar, til að hjálpa þeim að takast á við áföll og tilfinningalega vanlíðan
- Fjárhagslegan stuðning við fjölskyldur sem glíma við erfiðleika
Svona er aðstoðin
Í fyrsta fasa neyðaraðgerða okkar á Gaza eftir að stríðið braust út í október náðum við til 220 barnafjölskyldna og yfir þúsund einstaklinga. Hjálparstarf SOS beindist fyrst að fátækum barnafjölskyldum en nú er framundan aukinn stuðningur við fleiri börn og fjölskyldur í samfélaginu.
Aðstoðin felur í sér m.a. matarmiða í samstarfi við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna og matvæla- og fjárstuðning við brothættar fjölskyldur í verkefnum okkar. Fjölskyldur geta tekið pening út úr rafrænu veski í símanum sínum og keypt nauðsynjar. Áætlað er að styðja þannig við tvö þúsund einstaklinga í fyrsta áfanga og þrjú þúsund einstaklinga í þeim næsta.
Við höfum aukið við áfallahjálp og annan sálrænan stuðning fyrir börn og starfsfólk í SOS barnaþorpinu í Rafah sem er á Gaza. Sem betur fer hefur ekkert mannfall orðið meðal þeirra.
Starfsfólk okkar í barnaþorpinu lýsir ástandinu svona.
Ég gæti barnanna og róa þau eins mikið og hægt er. Við horfum saman á teiknimyndir og ég leik mér við þau. Við reynum að hugga þau og koma í veg fyrir að þau skynji hvað er að gerast, því það sem er að gerast er óhugsandi fyrir barn. Starfsmaður SOS í umönnun barna á Gaza.
Þegar það eru sprengjuárásir segi ég þeim að vera ekki hrædd og við byrjum að syngja „fara upp, og fara niður“. Þegar eldflaugin er uppi segjum við „fara upp“ og þegar hún fer niður segjum við „fara niður“, sem þýðir að sprengjan féll langt frá okkur. Starfsmaður SOS í umönnun barna á Gaza.
Allt söfnunarfé fer til SOS í Palestínu
SOS Barnaþorpin í Palestínu og Ísrael stóðu saman að fyrsta fasa neyðaraðgerða samtakanna. Við undirstrikum mikilvægi þess í almennri umræðu að blanda ekki saman starfsemi SOS Barnaþorpanna í Ísrael og Palestínu annars vegar við aðgerðir yfirvalda hins vegar. SOS Barnaþorpin standa með og starfa fyrir börn og fjölskyldur þeirra í neyð í báðum löndum.
Framlögum í fyrri neyðarsöfnun okkar vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs var úthlutað í þeim hlutföllum sem lýsti stærð aðgerða SOS Barnaþorpanna beggja megin landamæranna, 75% til Palestínu og 25% til Ísrael. Þetta var ákvörðun stjórnenda SOS Barnaþorpanna í þessum tveimur löndum.
Frá og með febrúar 2024 verður framlögum í neyðarsöfnun okkar hér á Íslandi eingöngu varið í aðgerðir SOS á Gaza.
Aðeins 5% af framlagi þínu í umsýslukostnað
Eins og alltaf þegar SOS Barnaþorpin standa fyrir neyðarsöfnun upplýsum við styrktaraðila um hvernig framlögum þeirra er ráðstafað. SOS Barnaþorpin á Íslandi senda allt framlag þitt óskert til alþjóðaskrifstofu SOS Barnaþorpanna í Austurríki. Þar fer 5% framlagsins í umsýslukostnað og 95% nýtist í sjálft hjálparstarfið á vettvangi.
Neyðaraðgerðir okkar eru framkvæmdar undir ströngu eftirliti alþjóðasamtaka SOS sem hlotið hafa hina alþjóðlegu CHS vottun sem neyðarhjálparsamtök með tilheyrandi ströngum verkferlum og eftirliti.
Staðan í Palestínu og Ísrael
Umfangsmikill þáttur í aðgerðum SOS í Palestínu og Ísrael er áfallahjálp og annar sálrænn stuðningur. Sérfræðingar áætla að ein af níu milljónum íbúa Ísrael, þar af mikill fjöldi barna, upplifi áfallastreituröskun. Hús hafa eyðilagst og ættingjar látist eða verið teknir í gíslingu.
SOS Barnaþorpin í Palestínu hafa skilgreint um 18 þúsund manns sem markhóp sinn í þeim neyðaraðgerðum sem framundan eru á Gaza. M.a. verða sett upp barnvæn svæði, stúlkur og konur fá nausynlegar hreinlætisvörur og sálfræðiaðstoð verður í boði. Áætlað er að tæpar tvær milljónir íbúa Gaza séu á vergangi, eða um 85% íbúa. Þá verður ástandið á Vesturbakkanum sífellt óstöðugra.
SOS Barnaþorpin í Palestínu hafa gengið frá samkomulagi við UNICEF um að taka á móti 55 fylgdarlausum börnum sem hafa misst foreldra sína eða orðið viðskila við þá í stríðinu á Gaza-svæðinu. SOS í Palestínu sér um umönnun barnanna í bráðabirgðaathvarfi í SOS Barnaþorpinu Rafah í að hámarki eitt ár.
Nánar má lesa um það og aðrar ítarlegri upplýsingar hér.
Hægt að gerast mánaðarlegur styrktaraðili fyrir SOS á Gaza
Áætlað er að yfir 18 þúsund börn á Gaza hafi misst annað eða báða foreldra sína í stríðinu sem stendur þar yfir. Neyðin á Gaza er nú orðin slík að ljóst er að efla þarf starfsemi SOS Barnaþorpanna í Palestínu til lengri tíma. Með því að gerast SOS-foreldri barna á Gaza gerist þú mánaðarlegur styrktaraðili SOS barnaþorpsins í Rafah.
SOS foreldri barna á Gaza
SOS foreldri barna á Gaza
Sem SOS foreldri barna á Gaza styrkir þú SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza í Palestínu með mánaðarlegu framlagi sem nemur 4.500 krónum. Framlagi þínu er varið í daglegan rekstur þorpsins svo tryggja megi öryggi og velferð þeirra barna sem þar búa og fer þeim nú fjölgandi.