Fréttayfirlit 23. júní 2023

Enn fjölgar sjálfstæðum barnafjölskyldum í verkefni okkar í Eþíópíu

Enn fjölgar sjálfstæðum barnafjölskyldum í verkefni okkar í Eþíópíu

Senn líður að lokum fjölskyldueflingar SOS Barnaþorpanna í Eþíópíu sem hófst árið 2018 og fjármögnuð er af SOS á Íslandi. Nú hafa 260 barnafjölskyldur risið upp úr sárafátækt og eru farnar að standa á eigin fótum og fleiri munu útskrifast fyrir verkefnalok í lok þessa árs.

Verkefnasvæði fjölskyldueflingarinnar í Eþíópíu er í bænum Eteya og nágrenni sem nefnt er Tulu-Moye. Skjólstæðingar þess eru foreldrar yfir 1.600 barna sem voru svo illa staddir í upphafi verkefnisins að þeir gátu ekki séð fyrir börnum sínum. Markmið verkefnisins er að koma í veg fyrir að fjölskyldur leysist upp af þessum völdum með þeim tækjum og tólum sem þekkt eru í samskonar verkefnum SOS um allan heim.

Á árinu 2022 voru alls 512.500 skjólstæðingar í 768 verkefnum í fjölskykldueflingu SOS Barnaþorpanna í heiminum. Þrjú þeirra verkefna eru á vegum SOS á Íslandi. Hin tvö verkefnin eru nýlega hafin í Malaví og Rúanda.

Svona gengur fjölskylduefling SOS fyrir sig

Samfélagslegt stuðningsnet

Foreldrarnir eru umvafðir víðtæku samfélagslegu stuðningsneti sem gerir það að verkum að þeir fara að afla sér tekna og fjölskyldurnar verða sjálfbærar. Börnin fá því grunnþörfum sínum mætt og þau geta haldið áfram námi. Foreldrarnir hafa tileinkað sér heilbrigðar uppeldisaðferðir með því að sækja námskeið þar að lútandi og hefur vitund foreldra stóraukist um öryggi og vernd barna.

Vítahringurinn rofinn

Þetta er einmitt lykillinn að framtíðinni fyrir börnin, að þau geti búið áfram hjá foreldrum sínum og stundað nám. Það er svona sem við rjúfum vítahring sárafátæktar, að vera til staðar fyrir þessar fjölskyldur og fylgjast með þeim taka framtíðina í sínar hendur, fara að afla sér tekna og verða sjálfbærar.

Eflir líka nærsamfélagið

Verkefnið í Eþópíu eflir ekki bara fjölskyldurnar sem í því eru heldur líka innviðina í nærsamfélaginu. Opnaður var leikskóli sem nýtist 223 börnum foreldra í krefjandi aðstæðum og börn í fátækum fjölskyldum fengu námsgögn. Fjölskyldueflingin stóð af sér Covid-19 og náði að lágmarka áhrif faraldursins á fjölskyldurnar á svæðinu.

Zemzen er húsmóðir í Eteya sem aflar tekna með rekstri verslunar við heimili sitt. Zemzen er útskrifuð úr fjölskyldueflingunni og getur nú séð fyrir börnum sínum. Zemzen er húsmóðir í Eteya sem aflar tekna með rekstri verslunar við heimili sitt. Zemzen er útskrifuð úr fjölskyldueflingunni og getur nú séð fyrir börnum sínum.

Úr sárafátækt í múrsteinaframleiðslu

Medina er einstæð fjögurra barna móðir í Eteya og er ein af þeim sem hafa útskrifast úr fjölskyldueflingunni. Eftir að eiginmaður Medinu lést stóð hún eftir ein með börnin og engar tekjur. Árið 2018 var staða fjölskyldunnar orðin svo alvarleg að börnin fengu ekki grunnþörfum sínum mætt og þau gátu auk þess ekki sótt skóla. Medina fékk þá inngöngu í fjölskyldueflingu SOS Barnaþorpanna sem SOS á Íslandi fjármagnar og þremur árum síðar hafði henni heldur betur tekist að snúa taflinu við sér í vil.

Sjáðu myndband með Medinu.

Lesa nánar hér: Úr sárafátækt í múrsteinaframleiðslu

Sjá einnig: 270 fjöl­skyld­ur laus­ar úr viðj­um fá­tækt­ar

Fjölskylduefling SOS í Eteya og Tylu-Moye er fjármögnuð af SOS Barnaþorpunum á Íslandi með stuðningi SOS-fjölskylduvina og Utanríkisráðuneytisins.

SOS fjölskylduvinur

Gerast SOS fjölskylduvinur

SOS fjölskylduvinur

Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.

Mánaðarlegt framlag
1.500 kr 2.500 kr 5.000 kr 7.500 kr