Fréttayfirlit 31. maí 2019

Hörð lending

Hörð lending

Lendingin var mjúk í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, við sólarupprás að morgni 1. febrúar sl. eftir 13 tíma ferðalag frá Íslandi. Við Ragnar, framkvæmdastjóri SOS, vorum komnir til að gera úttekt á Tulu Moye-Fjölskyldueflingunni sem við hjá SOS á Íslandi fjármögnum sunnar í landinu.

Þessi stórborg í fjarlægu Afríkulandi var eins og ég hafði ímyndað mér. Mannmergðin var mikil og fólk seljandi ávexti og grænmeti meðfram fjölförnum götum. Alls staðar var fólk, jafnvel þó út úr borginni væri komið, meðfram þjóðveginum og á honum. Fara þarf varlega til að keyra ekki á geitur, asna og önnur dýr. Þau eru verðmæti fólksins. Hvert þorpið við þjóðveginn rekur annað og mér fannst fátæktin aukast eftir því sem lengra var ekið. Og sú var raunin.

35 krónu rútumiði of dýr

Áfangastað okkar var náð eftir 2 tíma akstur. Við vorum komnir í smábæinn Iteya. Þarna og í Tero Moye, smáþorpi 20 km frá þjóðveginum, hjálpum við 560 sárafátækum fjölskyldum að verða sjálfbærar. Yfir 1600 börn eru í þessum fjölskyldum sem margar þurfa að ganga langa leið eftir vatni. Aðallega í Tero Moye þar sem fátæktin er slík að íbúar kjósa frekar að ganga 20 km leið eftir nauðsynjarvörum en að borga 35 krónur í rútuna, aðra leiðina.

Þetta er nægjusamt fólk en stærstu áhyggjur foreldranna eru þær sömu hjá öllum, að geta komið börnum sínum til mennta því foreldrarnir vilja ekki að þau festist í sama fátæktarvítahringnum og þau eru í. Börnin hafa þurft að taka þátt í tekjuöflun fyrir heimilið og það kemur niður á skólagöngu.

Þakklát Íslendingum

Líf þeirra er samt betra í dag en það var fyrir einu ári og þessar fjölskyldur eru allar meðvitaðar um að það er okkur Íslendingum að þakka. Úttekt okkar leiddi í ljós að skólasókn barnanna hefur rokið upp í 95%, dregið hefur úr vannæringu barna, aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu er betra, fjölskyldurnar eru mun meðvitaðri um mikilvægi menntunar, kynjajafnfrétti og meðferð fjármuna.

„Við erum ykkur svo þakklát. Vonandi haldið þið áfram að hjálpa okkur,“ sagði Sadije sem þénar 400 krónur á „góðum degi“ af sölu á korni. Tveggja mánaða gömul dóttir hennar lá á skítugri dýnu á gólfinu inni í 10 fermetra húsi þessarar fimm manna fjölskyldu. Ég fann á þessu augnabliki raunverulega hvar ég var lentur. Og þessi lending var hörð.

Ég tek undir orð Sadije. Vonandi höldum við áfram að hjálpa þessum fjölskyldum því við getum það. Ég hélt heim til Íslands sannfærður um að við erum að gera rétt og stoltur af Fjölskylduvinum SOS á Íslandi fyrir að vera með okkur í þessu verkefni.

Hans Steinar Bjarnason
Upplýsingafulltrúi SOS á Íslandi

Nýlegar fréttir

Á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu
23. apr. 2024 Almennar fréttir

Á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu

SOS Barnaþorpin á Íslandi senda á næstu dögum tíu milljónir króna til SOS í Palestínu vegna neyðaraðgerða á Gaza. Rúmar átta milljónir króna hafa safnast í söfnun SOS á Íslandi sem hófst í febrúar og ...

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna 2024
22. apr. 2024 Almennar fréttir

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna 2024

Boðað er til aðalfundar SOS Barnaþorpanna mánudaginn 13. maí kl.17:30 í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Hábraut 1a (gegnt Gerðasafni). Til þess að félagi geti nýtt félagsleg réttindi sín á aðalfundi s...