Bersýnilegur árangur af íslensku verkefni fyrir þolendur í Tógó
Bersýnilegur árangur hefur náðst í íslensku verkefni gegn kynferðislegri misnotkun á börnum í Tógó. Verkefnið hefur náð til 257 stúlkna sem eru þolendur kynferðisbrota, skilað fjölgun á slíkum málum á borði lögreglu og eflt fræðslu til kennara, nemenda og almennings.
Árið 2019 gerðu SOS Barnaþorpin á Íslandi samning við utanríkisráðuneytið um fjármögnun þróunarverkefnis í Ogou-héraði í Tógó. Verkefnið sem framlengt var út árið 2025 miðar að því að styðja barnafjölskyldur og samfélagið í forvörnum gegn kynferðislegri misneytingu á börnum, einkum stúlkum. Verkefnið felur í sér fyrirbyggjandi aðgerðir, stuðning og umönnun barna og stúlkna sem hafa orðið fyrir slíku ofbeldi með áherslu á að halda ungum stúlkum í skóla.
Stúlkurnar hrekjast úr skóla
Kynferðisleg misnotkun á barnungum stúlkum er mikill vágestur sem herjað hefur í áraraðir á Ogou hérað. Samfélagsleg gildi gera það að verkum að kynferðisleg misneyting á börnum, barnagiftingar stúlkna og brottfall unglingsstúlkna úr grunnskólum vegna þungunar eru aðkallandi vandamál á svæðinu.
Vilja ekki kæra nágranna
„Það er oft brugðist við þessum málum með of mikilli mildi. Flestar kærur falla niður af þeirri einföldu ástæðu að foreldrarnir vilja ekki fylgja kærunni eftir. Afríkubúar eru félagslyndir og nágrannarnir eru þeim mikilvægir. Þannig að þegar nágranni gerist brotlegur er svo erfitt að kæra hann, fara í gegnum ferlið og koma lögum yfir hann. Þetta er okkar helsta áskorun við að fást við vandamálið,“ segir starfsmaður barnaverndar í Ogou héraði.
Verkefnið skilar góðum árangri
Mikill og góður árangur hefur náðst í þessu verkefni til góða fyrir þolendur. Verkefnið hefur náð til 257 stúlkna sem eru þolendur kynferðisbrota. 208 þeirra voru við það að hætta í skóla en héldu þess í stað áfram og 30 fóru í starfsnám. Fræðsla hefur líka náð til 175 kennara í öllum tíu skólum svæðisins og 16.587 barna og ungmenna í samfélaginu. Meðal almennings hefur verkefnið náð til yfir 40 þúsund manns. Árangurinn er bersýnilegur.
Brottfall úr skóla er algeng afleiðing fyrir þessar stúlkur og þá skortir oft stuðning sem þær hafa nú fengið í gegnum verkefnið svo þær geti snúið aftur til náms en um leið hugsað um börnin sín.
Varð móðir 13 ára og hraktist úr skóla
Írena var aðeins nýorðin 13 ára þegar hún varð ólétt eftir nauðgun. Allt í einu voru framtíðardraumar þessarar ungu stúlku í uppnámi. Hún var komin með ungabarn í fangið áður en hún varð 14 ára og svo fór að hún hraktist úr grunnskólanámi af þessum völdum.
Heimildamynd um verkefnið
Í þessari heimildamynd er rætt við Írenu og fleiri unglingsstúlkur á verkefnasvæði okkar í Tógó sem sjálfar á barnsaldri urðu óléttar eftir nauðgun og fjallað um afleiðingarnar sem það hafði fyrir þær.
Nýlegar fréttir
Skrifstofa SOS lokuð milli jóla og nýárs
Skrifstofa SOS Barnaþorpanna verður lokuð milli jóla og nýárs og við opnum aftur 2. janúar. Þurfirðu að koma á framfæri erindi til okkar bendum við á netfangið sos@sos.is og við svörum þér strax og sk...
Börn og starfsfólk SOS á Gaza sluppu naumlega í árás
46 börn og ungmenni í umsjón SOS Barnaþorpanna á Gaza í Palestínu ásamt starfsfólki SOS sluppu naumlega þegar mannskæð árás var gerð 4. desember í nágrenni tjaldbúða þar sem þau dvelja. Yfir 20 manns ...