SOS barnaþorpið á Gaza rústir einar
SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza hefur hefur verið jafnað við jörðu og er rústir einar. Öll hús eru gereyðilögð og ljóst er að langur tími mun líða þar til börnin sem þar bjuggu fá varanlegt húsaskjól að nýju. Þetta kom í ljós á mánudag, 20. janúar, þegar starfsfólk SOS vitjaði barnaþorpsins eftir að vopnahlé tók gildi.
Barnaþorpið var rýmt í maí 2024 og börnin sem þar bjuggu voru ýmist flutt í barnaþorpið í Bethlehm á Vesturbakkanum eða í tjaldbúðir á Gaza. Þrátt fyrir að vera opinberlega viðurkennt sem mannúðarmiðstöð virðist barnaþorpið hafa orðið sprengjuregni að bráð. Þegar sprengjur sprungu í 200 metra fjarlægð frá barnaþorpinu í maí 2024 var ákveðið að rýma barnaþorpið.
„Þurfum að endurbyggja barnaþorpið frá grunni“
„Íbúðahúsin eru í molum. Við þurfum að endurbyggja barnaþorpið frá grunni,“ segir Reem Alreqeb, starfandi framkvæmdastjóri barnaþorpsins í Rafah. „Því miður lítur út fyrir að börnin og starfsfólkið sem voru eftir á Gaza þurfi að búa í tímabundnum tjaldbúðum í langan tíma. Ef við hefðum ekki yfirgefið barnaþorpið værum við eflaust ekki á lífi í dag,“ bætti hann við.
33 börn voru eftir í barnaþorpinu eftir að 68 börn voru flutt til Bethlehem. Þau sem eftir urðu voru flutt í tímabundin skýli í Khan Younis þar sem þau hafa haldið til ásamt starfsfólki SOS. Þá er óupptalinn sá fjöldi barna og annarra sem treyst hafa á neyðaraðstoð SOS Barnaþorpanna á Gaza. Framundan er strangt og mikið starf.
Þessi frétt er uppfærð reglulega og hér neðar má sjá helstu uppfærslur frétta frá SOS Barnaþorpunum í Palestínu síðan í október 2023 þegar stríðið braust út.
Þessi frétt er uppfærð reglulega
(9. desember 2024) 46 börn og ungmenni í umsjón SOS Barnaþorpanna á Gaza í Palestínu ásamt starfsfólki SOS sluppu naumlega þegar mannskæð árás var gerð 4. desember í nágrenni tjaldbúða þar sem þau dvelja. Yfir 20 manns létu lífið í árásinni Khan Younis, þeirra á meðal börn.
SOS fordæmir árásina harðlega
Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna fordæma árásina harðlega í yfirlýsingu og segja hana alvarlegt brot á alþjóðalögum. „Að ráðast á skilgreind mannúðaröryggissvæði sem ætlað er að vernda fjölskyldur á flótta - er algjörlega óviðunandi og sýnir augljósa lítilsvirðingu fyrir mannslífi. Börn verða að njóta verndar, sama hvað sem það kostar.“
Yfirlýsinguna má lesa á vef alþjóðasamtaka SOS.
Eins og við höfum áður greint frá var SOS barnaþorpið í Rafah rýmt í maí sl. og hafast börn og starfsfólk við í tímabundnum húsakosti, svo sem hefðbundnum tjaldbúðum eða viðarbústöðum. Í mars tókst að flytja 68 börn úr barnaþorpinu yfir til barnaþorpsins í Bethlehem á Vesturbakkanum.
SOS foreldrar á Íslandi fá jólabréf frá Palestínu
Um 260 Íslendingar eru SOS foreldrar barna og barnaþorpanna tveggja í Palestínu. Vegna ástandsins í Palestínu getur starfsfólk SOS þar í landi eðlilega ekki tekið saman upplýsingar um einstök börn til að senda SOS foreldrum fyrir jólabréfin.
Hins vegar munu þessir SOS foreldrar fá bréf með almennum fréttum af börnunum sem eru á framfæri þessarra tveggja barnaþorpa, í Rafah og Bethlehem. Þessi bréf munu m.a. innihalda valdar frásagnir frá börnunum um upplifun þeirra af ástandinu í Palestínu. Við minnum á að allir SOS foreldrar geta nálgast bréf og myndir tvö ár aftur í tímann á Mínum síðum hér á sos.is.
13. september 2024
SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu
Allt SOS samfélagið á Gaza er stanslaust í viðbragðsstöðu komi til rýmingar á tjaldbúðum SOS þar sem á annað hundrað manns halda til. Starfsfólk SOS á Gaza leitar að fleiri staðsetningum á Gaza sem valmöguleika komi til neyðarflutnings. Ísraelsher gerði mannskæða árás þann 10. september á svokallað „öruggt svæði“ sem er í 3 km fjarlægð frá tjaldbúðum SOS í Khan Younis. Ekkert mannfall varð á meðal okkar fólks, barnanna og fjölskyldna þeirra.
Rýma þurfti tjaldbúðir SOS í Deir-Al-Balah 22. ágúst sl. Þar voru 85 manns sem komið var fyrir hjá tjaldbúðum SOS í Khan Younis. SOS Barnaþorpin í Palestínu eru í nánu sambandi við fólkið og veita því stuðning í eins og tjöld, vatn, sólarorku og aðrar nauðsynjar.
Öll börn bólusett
Öll börn í umsjá SOS Barnaþorpanna og verkefnum samtakanna á Gaza hafa verið bólusett við lömunarveiki í samstarfi við önnur hjálparsamtök. Allt SOS samfélagið á Gaza heldur enn til í taldbúðum í nágrenni Khan Younis. Yfir 40 börn, forráðafólk þeirra og starfsfólk SOS barnaþorpsins í Rafah halda ennþá til í búðunum eftir rýmingu barnaþorpsins í maí sl.
Börnin aftur í skóla eftir átta mánaða hlé vegna stríðsins
25. júlí 2024
Börnin 68 sem flutt voru frá SOS barnaþorpinu í Rafah á Gaza til barnaþorpsins í Bethlehem á Vesturbakkanum í mars sl. eru komin aftur í skóla. Vegna stríðsins féll skólaganga þeirra niður í átta mánuði. SOS Barnaþorpin í Palestínu hófu samstarf við einkakóla sem mun hjálpa börnunum að vinna upp þann tíma í námi sem glataðist.
„Ég er mjög ánægð með að vera komin aftur í skóla eftir þetta langa hlé. Okkur er að fara fram og við erum farin að rifja upp það sem við vorum búin að gleyma,“ segir Siwar, 14 ára stúlka í SOS barnaþorpinu í Bethlehem.
Heil á húfi á Gaza eftir loftárás
Flóttamannabúðir í Khan Younis á Gaza urðu fyrir loftárás laugardaginn 13. júlí sl. Þar eru m.a. tjaldbúðir sem SOS Barnaþorpin settu upp og hýsa 227 manns eftir að barnaþorpið í Rafah var rýmt í lok maí en allir í tjaldbúðunum okkar eru heilir á húfi.
Lykiltölur frá Gaza
- 16,368 einstaklingar hafa fengið stuðning frá SOS Barnaþorpunum frá upphafi stríðsins.
- 68 börn og starfsfólk voru flutt frá barnaþorpinu á Gaza til barnaþorpsins í Bethlehem á Vesturbakkanum.
- 227 manns búa í tjaldbúðum sem SOS Barnaþorpin settu upp.
- 17 börn hafa sameinast fjölskyldum sínum á ný.
- 10,267 einstaklingar hafa fengið fjárhagsaðstoð fyrir helstu nauðsynjum.
- 2,156 einstaklingar hafa fengið sálfræðiaðstoð.
Gerast SOS foreldri barna á Gaza
30. maí 2024:
Börn og starfsfólk yfirgefa SOS Barnaþorpið í Rafah
Þann 28. maí hófu SOS Barnaþorpin flutning barna og fullorðinna frá barnaþorpinu í Rafah vegna stóraukinnar öryggisáhættu á staðnum þar sem barnaþorpið er. Öll 33 börnin sem eru á framfæri samtakanna og búa í barnaþorpinu í Rafah eru komin heil á húfi á annan stað á Gaza.
Með þessum flutningum verður SOS barnaþorpið í Rafah ekki lengur sú miðstöð neyðaraðstoðar sem hún hefur verið fyrir íbúa Rafah og aðra á flótta.
„Það er skýr ætlun SOS Barnaþorpanna að koma aftur á mikilvægri mannúðaraðstoð við fólk á Gaza-svæðinu eins fljótt og auðið er,“ segir Ghada Hirzallah, framkvæmdastjóri SOS barnaþorpanna í Palestínu.
Komið fyrir á „öruggum svæðum“
Í hópnum sem flutti frá barnaþorpinu eru börn, starfsfólk, fyrrverandi skjólstæðingar samtakanna og fjölskyldur þeirra. Hefur fólkið komið sér fyrir á nýjum stöðum sem tilgreind hafa verið sem „örugg svæði“. Því miður hafa svæði sem áður töldust „örugg“ orðið fyrir árásum þar sem mannfall hefur orðið. Við skorum því á alla sem koma að þessum átökum að vernda óbreytta borgara eins og skylda þeirra er samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum.
Flest börn á framfæri SOS í Rafah, ásamt því starfsfólki sem annast börnin, voru flutt á Vesturbakkann í mars. Það var mögulegt vegna samvinnu allra aðila deilunnar. Þessi börn eru nú tiltölulega örugg og hafa hafið nám á nýjan leik.
Við höfum miklar áhyggjur af öryggi og velferð barna og starfsfólks á flótta. Börn eru alltaf þau sem þjást mest í hvaða stríði sem er. Mörg barnanna, sem voru í SOS barnaþorpinu á Gaza, hafa verið á flótta nokkrum sinnum til að flýja átökin.
Ákall um endalok stríðsreksturs
SOS Barnaþorpin ítreka ákall um að stríðsreksturinn á Gaza verði stöðvaður tafarlaust til að tryggja öryggi barna, ungmenna og fjölskyldna í borginni Rafah og annarra íbúa Gaza.
Við skorum á alla aðila að tryggja öryggi þeirra barna sem verða fyrir barðinu á átökunum í samræmi við alþjóðalög. Sérhvert barn á rétt á öruggu lífi. Við munum halda áfram starfi okkar á Gaza og halda áfram að styðja börn og fjölskyldur í þessum aðstæðum sem ógna ekki aðeins lífi þeirra, heldur líka starfsfólks okkar.
Vernd samkvæmt alþjóðalögum
Börnin og starfsfólkið voru flutt á staði sem njóta eiga verndar samkvæmt alþjóðalögum. Deiluaðilum er því lagalega óheimilt að ógna þeim stöðum og ekki undir neinum kringumstæðum nota þá í hernaðarlegum tilgangi.
Alls styrkja um 150 Íslendingar börn á framfæri SOS Barnaþorpanna á Gaza með mánaðarlegum framlögum. Þau framlög eru ekki síður mikilvæg á þessum erfiðu tímum en áður.
14. maí 2024: SOS Barnaþorpin í Palestínu eru í viðbragðsstöðu og reiðubúin ef rýma þarf barnaþorpið í Rafah vegna árásar Ísraelshers á Gaza. Um 250 manns eru búsett í barnaþorpinu sem stendur, þar af 30 börn og aðrir skjólstæðingar samtakanna auk starfsfólks. Ástandið á Gaza er sérstaklega viðkvæmt núna og SOS Barnaþorpin eru einu hjálparsamtökin eftir á svæðinu sem taka að sér fylgdarlaus börn.
Eins og við greindum frá í mars voru 68 börn og 11 starfsmenn SOS barnaþorpsins í Rafah flutt á brott úr barnaþorpinu. Þau eru komin á öruggari stað til Bethlehem á Vesturbakkanum.
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa sent tíu milljónir króna til SOS í Palestínu vegna neyðaraðgerða á Gaza. Rúmar átta milljónir króna hafa safnast í söfnun SOS á Íslandi sem hófst í febrúar og stendur enn yfir á sos.is. Þetta er í annað sinn sem SOS á Íslandi sendir tíu milljónir króna til neyðaraðgerða SOS í Palestínu eftir að átökin brutust út fyrir botni Miðjarðarhafs í október sl. Fjölmargir Íslendingar hafa einnig gerst mánaðarlegir styrktaraðilar SOS Barnaþorpanna í Palestínu og nema greiðslur vegna þeirra rúmum sex hundruð þúsundum króna á mánuði.
Sjá einnig: Á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu
13. mars 2024: 68 börn og 11 starfsmenn SOS barnaþorpsins í Rafah á Gaza í Palestínu hafa verið flutt á brott úr barnaþorpinu. Þau eru komin á öruggari stað til Bethlehem á Vesturbakkanum þar sem hitt SOS barnaþorpið er í Palestínu. Börnin sem eru á aldrinum 2-14 ára komu þangað á mánudaginn 11. mars ásamt forráðafólki sínu úr barnaþorpinu í Rafah.
Börnunum og starfsfólkinu líður vel miðað við aðstæður og njóta þau áfram umönnunar og sálræns stuðnings SOS Barnaþorpanna í Palestínu. Sum barnanna urðu eftir í barnaþorpinu í Rafah þar sem samþykki fyrir brottflutningi var ekki veitt af ættingjum þeirra og löggiltu forráðafólki.
111 Íslendingar eru SOS-foreldrar barnanna í SOS barnaþorpinu í Rafah. Þá hafa þúsundir Íslendinga styrkt neyðarsöfnun fyrir SOS Barnaþorpin í Palestínu. Stuðningur þessara Íslendinga er sérstaklega mikilvægur á þessum erfiðu tímum.
SOS barnaþorpið í Rafah hýsir einnig og heldur áfram að taka inn börn sem hafa misst umönnun foreldra í yfirstandandi stríði. Barnaþorpið í Rafah hýsir einnig meira en 100 flóttamenn, þeirra á meðal eru fjölmörg börn.
„Þessi árangursríki brottflutningur gefur okkur smá von. En á sama tíma höfum við áfram áhyggjur af öllum börnum sem eru enn í hættu á Gaza,“ segir í tilkynningu frá alþjóðasamtökum SOS Barnaþorpanna.
12. febrúar 2024: Ástandið í SOS barnaþorpinu í borginni Rafah í Palestínu verður sífellt viðkvæmara og er nú ekki lengur talið öruggt. Ísraelsher hefur hafið árásir á borgina og undirbýr rýmingaráætlanir fyrir almenna borgara vegna yfirvofandi frekari árása. Þetta hefur bein áhrif á starfsemina í SOS barnaþorpinu í Rafah þar sem búa núna 76 börn og ungmenni auk starfsfólks.
Sjá náner hér: SOS barnaþorpið í Rafah ekki lengur öruggt
76 börn og ungmenni í barnaþorpinu í Rafah
5. febrúar 2024: SOS barnaþorpið í Rafah tekur að sér fylgdarlaus börn og ungmenni sem misst hafa foreldra sína í stríðsátökunum. Í barnaþorpinu búa núna 76 börn og ungmenni. Öll börn og starfsfólk barnaþorpsins eru heil á húfi eins og er. Í barnaþorpinu fá börnin sálrænan stuðning daglega og starfsfólk sér til þess að umhverfi þeirra sé eins barnvænt og kostur er. „Eins og að taka reglulega þátt í skemmtilegum leikjum,“ segir starfsmaður í barnaþorpinu.
Börnin heyra stöðug sprengjuhljóð
„Börnin heyra stöðugt í sprengjum og skothvellum allan daginn. Þau eru áhyggjufull og óttast líf ættingja sinna og vina í samfélaginu. Börnin eru undir miklu álagi. Þau mega ekki yfirgefa barnaþorpið og því leggjum við mikið á okkur til að létta þeim lífið og sjá til þess að þau hafi nóg fyrir stafni.“
62 starfsmenn eru í barnaþorpinu í Rafah og margir þeirra hafa misst heimili sín. „Til að styðja við börnin réðum við sjö starfsmenn úr nærsamfélaginu í Rafah, auk félagsráðgjafa, sálfræðings og hjúkrunarfræðings," segir Ghada Hirzallah, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Palestínu.
19-25 þúsund börn hafa misst foreldra
Margt fólk kemur reglulega að barnaþorpinu í Rafah og biður um að tekið sé við börnum sem það getur ekki séð fyrir. Þetta er oft skyldfólk sem tók að sér börn látinna ættingja en getur ekki lengur framfleytt börnunum. Erfitt er að segja nákvæmlega til um hversu mörg börn hafa misst annað eða báða foreldra sína í stríðinu á Gaza en heimildir úr ýmsum áttum gefa til kynna að það séu á bilinu 19 til 25 þúsund börn.
Neyðarsöfnun fyrir SOS í Palestínu
SOS Barnaþorpin í Palestínu eru að hjálpa þessu fólki í neyðaraðgerðum sínum sem hófust í október. Fjöldi Íslendinga gaf framlög til neyðarsöfnunar vegna sameiginlegs hjálparstarfs SOS í Palestínu og Ísrael fyrst eftir að stríðið braust út. Síðan hefur neyðin margfaldast á Gaza og nú í vikunni settu SOS Barnaþorpin á Íslandi af stað neyðarsöfnun, eingöngu vegna aðgerða SOS á Gaza.
9. janúar 2024
SOS mæður á eftirlaunum snúa aftur til starfa
Þrátt fyrir að stríðsástand hafi varað á Gaza í þrjá mánuði heldur starfsemi SOS barnaþorpsins í Rafah áfram og börnin þar fá öllum grunnþörfum sínum mætt. Yfir 70 börn bjuggu í barnaþorpinu áður en stríðið braust út og nú bætast enn fleiri börn við sem misst hafa foreldra sína í stríðinu.
Eins og áður hefur verið greint frá hér neðar í þessari uppfærðu færslu hófu SOS Barnaþorpin samstarf við UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Samkomulag samtakanna felur í sér að SOS Barnaþorpin taka við umönnun alls 55 fylgdarlausra barna og eru fimm fyrstu börnin nú þegar flutt í barnaþorpið í Rafah.
„Við erum m.a. að fá til baka tvær reyndar SOS-mæður á eftirlaunum til þess að taka að sér umönnun barnanna sem nú bætast í hópinn auk fleira starfsfólks sem við þurfum í það nauðsynlega uppeldisstarf sem framundan er,“ segir talsmanneskja SOS Barnaþorpanna í Palestínu.
Þriggja ára stúlka í áfalli fannst fylgdarlaus
Fimm fylgdarlaus börn komu í barnaþorpið á síðustu dögum. Sum þeirra eru í alvarlegu áfalli og fá sálfræðiaðstoð. Meðal þeirra er þriggja ára stúlka sem fannst ráfandi um ein og fylgdarlaus við eftirlitsstöð á Gaza.
21. desember 2023
SOS Barnaþorpin í Palestínu hafa undanfarið aðstoðað fjölda fólks í neyð á Gaza. Í fyrsta fasa neyðaraðgerða okkar á Gaza eftir að stríðið braust út í október náðum við til 220 barnafjölskyldna og yfir þúsund einstaklinga. Hjálparstarf SOS beindist fyrst að fátækum barnafjölskyldum en nú er framundan aukinn stuðningur við fleiri börn og fjölskyldur í samfélaginu.
Sjá einnig: Þetta erum við að gera á Gaza
8. desember 2023
SOS tekur að sér 55 fylgdarlaus börn á Gaza
SOS Barnaþorpin í Palestínu hafa gengið frá samkomulagi við UNICEF um að taka á móti 55 fylgdarlausum börnum sem hafa misst foreldra sína eða orðið viðskila við þá í stríðinu á Gaza-svæðinu. SOS í Palestínu sér um umönnun barnanna í bráðabirgðaathvarfi í SOS Barnaþorpinu Rafah í að hámarki eitt ár.
„Til að styðja við börnin munum við ráða sjö starfsmenn úr nærsamfélaginu í Rafah, auk félagsráðgjafa, sálfræðings og hjúkrunarfræðings. Við munum fá tvær reyndar SOS-mæður á eftirlaunum til að sinna börnunum ásamt nauðsynlegu uppeldisstarfi," segir Ghada Hirzallah, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Palestínu.
Svona er neyðaraðgerðum SOS Barnaþorpanna háttað
Yfir 17 þúsund börn á Gaza hafa misst foreldra
Flóknar og umfangsmiklar neyðaraðgerðir SOS Barnaþorpanna á svæðinu hafa verið í fullum gangi frá því stríðið braust út í byrjun október. Starfsfólk SOS á svæðinu lýsir gríðarlega erfiðum aðstæðum. Áætlað er að á bilinu 17.000 til 18.000 börn hafi misst annað eða báða foreldra sína í stríðinu á Gaza. Eftir standa börn án andlegs og fjárhagslegs stuðnings. Auk þess hafa yfir 450 þúsund börn misst heimili sín.
Ekkert mannfall hefur orðið í sjálfum SOS barnaþorpunum í Palestínu og Ísrael en tíu skjólstæðingar fjölskyldueflingar á Gaza eru látnir, þar af sex börn. Í Ísrael hafa fjórir skjólstæðingar fjölskyldueflingar látist, þar af þrjú börn.
Börnin heil á húfi í barnaþorpinu í Rafah
(16. nóvember, 2023)
Þær upplýsingar sem við höfum frá SOS barnaþorpinu í Rafah er að börnin í barnaþorpinu eru öll heil á húfi. Það er vel hugsað um þau af SOS mæðrum og sálfræðingum sem eru að vinna mjög gott starf. Mikil áhersla er á að dreifa huga barnanna og koma í veg fyrir að þau verði hrædd.
„Ég reyni að vera yfirveguð eftir minni bestu getu. Við horfum á teiknimyndir og leikum við börnin. Við reynum að hugga þau svo að þau finni sem minnst fyrir því sem er að gerast - því það sem er í rauninni að gerast er óbærilegt fyrir huga barnanna," segir SOS móðoir í barnaþorpinu í Rafah.
Mannfall meðal skjólstæðinga SOS
Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna fordæma harðlega árásir á borgaralega innviði og aðstöðu samtakanna á Gaza. Tvær íbúðir á Gaza sem SOS Barnaþorpin útveguðu fjölskyldum eyðilögðust í loftárásum. Áður hafði fjölskyldunum verið komið á öruggan stað og létust hvorki starfsfólk né skjólstæðingar SOS í árásinni.
SOS Barnaþorpin hafa misst og syrgja fjölmörg börn, ungmenni og foreldra í verkefnum á vegum samtakanna, bæði í Ísrael og Palestínu, sem látist hafa í yfirstandandi átökum.
(1. nóvember, 2023)
SOS á Íslandi sendir 10 milljónir króna
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa ákveðið að senda 10 milljónir króna í neyðaraðgerðir sem SOS í Palestínu og Ísrael standa sameiginlega að, beggja vegna landamæranna. Eðli neyðarinnar er vissulega ekki það sama í Ísrael og á Gaza og munu aðgerðir SOS taka mið af stöðunni hverju sinni. Almenningur á Íslandi getur lagt söfnuninni lið í neyðarsöfnun okkar hér á sos.is.
SOS Barnaþorpin hjálpa börnum sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar að sameinast á ný, sinna börnum sem misst hafa foreldra sína og huga sérstaklega að áfallahjálp og geðheilsu barnanna, sem upplifað hafa hræðilega hluti. Þetta gerum við án þess að taka pólitíska afstöðu. Við einfaldlega hjálpum þeim börnum sem við getum hjálpað og þurfa á hjálp að halda.
Þessi frétt er uppfærð reglulega og hér neðar má sjá yfirlit yfir það sem við vitum.
Við vinnum að því að tryggja öryggi eins margra og við getum á Gaza. Við erum miður okkar vegna þeirra sem hafa látist og slasast. Ingrid Johansen, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka SOS
17. október 2023
Ákall um tafarlaust vopnahlé
Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna birtu í dag yfirlýsingu og opinbert ákall um tafarlaust vopnahlé á Gaza.
„Hækkandi tala látinna og yfirvofandi mannúðarkrísa krefjast þess af öllum hlutaðeigandi aðilum að taka tafarlaust, skref í átt að því að vernda almenna borgara og ljúka þessu stríði. Ekkert réttlætir dráp, árásir og ofbeldi gegn almennum borgurum. SOS Barnaþorpin kalla eftir vopnahléi tafarlaust."
Sjá tilkynningu SOS Children´s Villages
Allir heilir á húfi í barnaþorpunum
SOS Barnaþorpin í Ísrael og Palestínu staðfestu 9. október að öll börn og ungmenni á framfæri samtakanna í barnaþorpunum eru heil á húfi. Blóðug stríðsátök hófust laugardaginn 7. október og hefur mannfall verið mikið.
Því miður lést barn í fjölskyldueflingu SOS í Palestínu og ungur piltur í verkefni þar á vegum SOS. Mánudaginn 16. október bárust svo þau sorgartíðindi að heil fjölskylda í fjölskyldueflingu SOS í Palestínu hafi látist í sprengjuárás á sunnudeginum 15. október.
Sjá einnig: Söfnun hafin fyrir SOS Barnaþorpin í Palestínu og Ísrael
Sjö manna fjölskylda dó í sprengjuárás - „Börnin eru hrædd“
SOS styður einnig fjölskyldur sem eiga um sárt að binda. „Þetta eru stuðningsverkefni/fjölskylduefling og það eru um 350 fjölskyldur sem þiggja þá aðstoð. 1.500 börn tilheyra þessum fjölskyldum. Margar þeirra búa á Gazaströndinni og nú þegar höfum við fengið fregnir af því að sjö manna fjölskylda dó í sprengjuárás, hjón og fimm börn.
Við höfum líka fengið að vita af annarri fjölskyldu sem varð fyrir árás. Mamman er ekkja, hún er mikið slösuð, elsti sonur hennar sem var 22 ára er látinn og litlu systkini hans þrjú líka. Sonurinn var fyrirvinna fjölskyldunnar. Þetta er bara það sem við höfum fengið staðfest,“ segir konan og bætir við að mun fleiri séu dánir á Gaza en greint hefur verið frá því að fjöldi fólks sé grafið undir rústum. „Óttast er að það séu mjög mörg börn grafin í rústum húsa,“ sagði starfskona SOS í Palestínu í viðtali við íslenska fréttamiðilinn Heimildina.
Sjá nánar hér
Síðustu vikur hefur börnunum verið kennt hvernig á að bregðast við ef ráðist verður á þorpin þar sem þau búa. Starfskona SOS í Palestínu
17 börn styrkt af Íslendingum
Íslenskir SOS-foreldrar styrkja átta börn í SOS barnaþorpum í Palestínu og níu börn í Ísrael. Börnin verða áfram á framfæri SOS Barnaþorpanna og því heldur stuðningur styrktaraðila áfram að skipta máli.
Alls eru 213 börn og ungmenni á framfæri SOS Barnaþorpanna í Ísrael í tveimur barnaþorpum, í Arad og Migdal Haemek. Þá er ungmennaheimili SOS í Tel Aviv. 193 börn og ungmenni eru á framfæri SOS í Palestínu í tveimur barnaþorpum, í Bethlehem og Rafha.
SOS Barnaþorpin hafa starfað í Palestínu síðan 1968 og í Ísrael síðan 1977 og búa samtökin því yfir áratuga langri reynslu á svæðinu. Ákveðið ferli fer í gang við slíkar aðstæður sem miðar að því að tryggja öryggi barnanna.
Barn í fjölskyldueflingu SOS lést
Auk barnanna í barnaþorpunum í Palestínu eru rúmlega 4.200 börn, ungmenni og foreldrar þeirra skjólstæðingar í fjölskyldueflingu SOS. Staðfest er að eitt barn úr fjölskyldueflingu SOS lét lífið og tvö eru á gjörgæslu. Þá lést þar einnig piltur sem var þátttakandi í atvinnueflingu SOS fyrir ung fólk.
Palestína
Mörg börn á framfæri SOS í Palestínu búa að staðaldri hjá kynforeldrum sínum með stuðningi SOS og hafa þau öll verið flutt í barnaþorpið í Rafah á Gaza-svæðinu. „Við erum í stöðugum samskiptum við fólkið okkar á Gaza og gerum ráðstafanir eftir þörfum,“ segir Ghada Hirzallah, starfandi framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Palestínu.
Ísrael
Börnin í SOS Barnaþorpunum í Ísrael voru flest hver í hefðbundinni heimsókn til kynforeldra sinna þegar átökin brutust út og áttu að snúa aftur í barnaþorpin að kvöldi laugardagsins sem átökin brutust út. Yfirvöld óskuðu eftir því að börnin yrðu tímabundið áfram hjá kynforeldrum sínum. Öll börnin eru þó á framfæri og undir eftirliti SOS Barnaþorpanna. Önnur börn eru í umsjón SOS-mæðra sinna eða starfsfólks neyðarmiðstöðva SOS.
Við fylgjumst áfram með framvindu mála og bætum við upplýsingum hér í þessari færslu ef tilefni verður til.
Sjá einnig: Uppfærð fréttaumfjöllun RÚV
SOS foreldri barna á Gaza
SOS foreldri barna á Gaza
Sem SOS foreldri barna á Gaza styrkir þú SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza í Palestínu með mánaðarlegu framlagi sem nemur 4.500 krónum. Framlagi þínu er varið í daglegan rekstur þorpsins svo tryggja megi öryggi og velferð þeirra barna sem þar búa og fer þeim nú fjölgandi.